Á menntun að vera munaður?
Með breyttri menntastefnu árið 2015 voru fjöldatakmarkanir settar á bóknámsnemendur í framhaldsskólum sem náð hafa 25 ára aldri. Þeim nemendum fækkaði um 40% í kjölfarið. Skilaboðin voru skýr, nemendurnir voru ekki velkomnir í framhaldsskólana. Þeim er vísað á einkaskóla sem reka frumgreinadeildir með tilheyrandi kostnaði. Hár kostnaður verður til þess að færri fara í nám. Frumgreinadeildir eru aðeins á þremur stöðum á landinu, á Bifröst í Borgarfirði, Háskólanum í Reykjavík og Keili á Suðurnesjum. Símenntunarmiðstöðvar bjóða upp á sex til tíu mánaða nám til undirbúnings fyrir frumgreinadeildirnar sem kallast menntastoðir og taka fyrir það sérstaka greiðslu. Þannig er ríkið í raun að styrkja þrefalt kerfi á framhaldsskólastigi.
Allir tapa
Mörg dæmi eru um fólk sem hefur eftir 25 ára aldur tekið stúdentspróf í framhaldsskólum í sínum heimabæ, farið svo í starfsnám á háskólastigi og sinna margvíslegum störfum úti um allt land. Sá möguleiki er ekki lengur í boði. Þó að fjöldatakmarkanirnar komi niður á báðum kynjum, eru fleiri dæmi um konur sem hafa farið þessa leið við að ljúka t.d. kennaranámi eða námi í hjúkrunarfræðum og samfélagið treystir mjög á þeirra störf og fagþekkingu. Öll þekkjum við fólk sem hefur flosnað upp úr framhaldsskólanámi eða orðið að hætta af einhverjum ástæðum, svo sem vegna veikinda eða fjárskorts. Við þekkjum líka öll fólk sem hefur farið aftur í framhaldsskóla eftir slíkt hlé. Þau starfa í leikskólum, grunnskólum, heilbrigðisstofnunum og tæknigreinum svo dæmi séu tekin. Nú er þessi leið lokuð. Það er mikill missir fyrir bæði einstaklingana sem hafa nú ekki sömu tækifæri og áður og missir fyrir samfélagið allt.
Menntun á ekki að vera munaður á Íslandi. Framhaldsskólinn á að vera fyrir alla.
Oddný G. Harðardóttir þingmaður býður sig fram til formanns Samfylkingarinnar. Kjörið fer fram með rafrænum hætti 28. maí til hádegis 3. júní. Allir þeir sem skráðir eru í Samfylkinguna kl. 12:00 á hádegi 7. maí geta tekið þátt í kosningunni. Skráning í Samfylkinguna og nánari upplýsingar eru á síðunni samfylking.is.
Þessi grein birtist fyrst í Breiðholtsblaðinu, þann 19. maí 2016.