Grindavík

Grindavík

Þegar þessi pistill er skrifaður fylgjumst við með fréttum af svæðinu í kringum Grindavík. Eldgos er ekki hafið og óvissan er nánast óbærileg.

Líkur eru til þess að fyrir höndum sé eitt stærsta samfélagslega verkefni sem þjóðin hefur tekist á við. Í slíkum aðstæðum er samtakamátturinn mikilvægur og það er ómetanlegt að finna þann samhug sem Grindvíkingum er sýndur nú.

Öll vonum við að upptök eldgoss verði á eins hagstæðum stað og mögulegt er. Enginn ræður við náttúruöflin, þau fara sínu fram. Það er eðlilegt að fyllast vanmætti þegar yfirvofandi eru hamfarir sem gætu orðið meiri en við höfum áður upplifað.

Það sem við getum gert er að vera til staðar fyrir þá sem á þurfa að halda og gæta að öryggi og velferð allra þeirra sem hafa þurft að flýja heimili sitt. Það er eðlilegt að fólk hafi áhyggjur af starfi sínu og framtíð. Fólk veltir fyrir sér tjóni í vatns- og rafmagnsleysi og áhrifum svörtustu sviðsmyndarinnar á líf þeirra og upplifir allan tilfinningaskalann.

Grindvíkingar þurfa stuðning og skilning. Fólki sem stendur veikt félagslega þarf að veita sérstakan gaum og innflytjendum sem ekki eiga bakland hér á landi. Húsnæðismál, skólamál, dagvistun, afþreying og sáluhjálp eru dæmi um verkefni sem við getum og eigum að halda vel utan um. Fjöldi fólks hefur þegar látið til sín taka í þessum efnum og er það bæði virðingar- og þakkarvert. Náungakærleikurinn er bersýnilegur.

Sveitarstjórnarfólkið í Grindavík hefur verið í sambandi við önnur sveitarfélög, sem eru boðin og búin til hjálpar. Saman getum við tekist á við hvað sem að höndum ber. Stjórnvöld þurfa að nýta tímann vel í allar þær fyrirbyggjandi aðgerðir sem mögulegar eru. Allt frá byggingu varnargarða að hamfaratryggingum og afkomu fólks og heilsu. Það þarf að vinna hratt og létta óþarfa áhyggjum af Grindvíkingum.

Nýtum reynsluna af öðrum áföllum og aðgerðum. Rifjum upp hvað gekk vel og hvað hefði mátt betur fara þegar ákvarðanir eru teknar, s.s. vegna Vestmannaeyjagossins, afleiðinga skriðufalla í Seyðisfirði og covid-aðgerða. Koma þarf á stöðugleika fjölskyldulífs eins og hægt er með tryggu húsnæði, frysta lán án tilkostnaðar fyrir Grindvíkinga, greiða lokunarstyrki til fyrirtækja  og sjá til þess að ráðningasamband atvinnurekenda og launafólks  haldist á meðan óvissa ríkir.

Við þessar aðstæður farnast okkur best að fara að ráðum okkar færasta fólks. Við búum við öflugar almannavarnir sem við getum treyst. Góð upplýsingamiðlun er þar lykilatriði.

Ég er þakklát öllu því góða fólki sem stendur vaktina, upplýsir okkur um stöðu mála og tekur erfiðar ákvarðanir svo ekki sé minnst á öll þau sem hlaupa til þegar hjálpar er þörf.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 14. nóvember 2023. Mynd: Heimildin