Auður, völd og auðlindin
Ítrekað hefur verið bent á að of sterk yfirráð fárra aðila yfir fiskveiðiauðlindinni þýði meiri völd til þeirra í þjóðfélaginu en heilbrigt getur talist og staða þeirra sé of sterk gagnvart stjórnvöldum og fjölmiðlum. Völd þeirra og áhrif geti orðið skaðleg og áhrif þeirra á ákvarðanir í stjórnkerfinu og á vettvangi stjórnmála geti unnið gegn almannahag.
Samþjöppun kemur í veg fyrir samkeppni og hamlar nauðsynlegri endurnýjun. Tilfærsla milli byggða getur skaðað sveitarfélög og tilfærsla milli útgerðarflokka getur leitt til þess að minni útgerðir fara halloka.
Mikil samþjöppun hefur átt sér stað í sjávarútvegi hér á landi á undanförnum áratugum. Tíu stærstu útgerðirnar fara með meira en helming kvótans og 20 stærstu útgerðirnar ráða yfir meira en 70% kvótans. Ofan á þetta bætist svo eignarhald þessara útgerðarisa í öðrum útgerðum. Stór útgerðarfyrirtæki hér á landi eru í raun rekin sameiginlega og hafa samráð um veiðar, vinnslu og sölu afurða.
Samherjaskjölin
Það var þann 12. nóvember 2019 að rannsóknarblaðamennska Kveiks, Stundarinnar, Al Jazeera og Wikileaks var opinberuð um starfsemi Samherja í Namibíu. Umfjöllunin var ítarleg og studd með gögnum um mútugreiðslur, skattsvik og peningaþvætti.
Með umfjölluninni var dregin upp dökk mynd af starfsemi Samherja, sem er eitt stærsta fyrirtækið á Íslandi og hefur hagnast um meira en 100 milljarða á innan við áratug og teygir arma sína inn í fjölmarga aðra geira en fiskvinnslu á Íslandi.
Tæpu hálfu ári seinna ákveða Samherjahjón að greiða börnum sínum arf, fyrirfram. Sagt er að verðmætið sé um 70 milljarðar króna. Það er há upphæð sem foreldrar ákveða að færa börnum sínum. Auður sem hefur orðið til vegna þess að eigendur Samherja hafa haft aðgang að sameiginlegum auðlindum þjóðarinnar.
Auðlindarentan af fiskveiðiauðlindinni hefur runnið nær óskipt í vasa úrgerðarmanna á Íslandi. Renta sem ætti að renna í ríkissjóð og sveitarsjóði og þaðan til allra barna og velferðarkerfisins, rennur í vasa útgerðarmanna og þaðan beint til barna þeirra.
Spilling
„Bölvun auðlindanna“ er þekkt hugtak í hagfræði. Spilling er böl sem getur oft verið fylgifiskur skjótfengins gróða sem miklar náttúruauðlindir geta skapað. Ísland býr yfir ríkulegum sjávarauðlindum og þessi bölvun vofir yfir okkur líkt og Namibíu.
Einn okkar besti rannsóknarblaðamaður Helgi Seljan, vann að fréttaskýringaþætti Kveiks um Samherjaskjölin. Samherji ræðst að starfsheiðri fréttamannsins með áróðri sem fyrirtækið dreifir um netið. Fyrirtækið nýtir mikla fjármuni og sterka stöðu til að sýna okkur hinum að það borgi sig ekki að gagnrýna eigendur þess. Vegna þess að þeir hafa stöðu og efni á að þagga niður í okkur.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 27. apríl 2021