Búvörusamningar – fyrir hvern?
Vegna þeirra búvörusamninga, sem nú eru til umræðu í atvinnuveganefnd Alþingis, verða greiddir beint úr ríkissjóði um 14 milljarðar króna á hverju ári næstu 10 árin. Þegar slík upphæð rennur úr sameiginlegum sjóðum okkar þurfa rökin fyrir því að vera skotheld og almannahagur augljós. Ef ekki, geta alþingismenn ekki samþykkt frumvörpin.
Mörg sjónarmið og rök eru fyrir sérstökum stuðningi við landbúnað, bæði hér á landi og í öðrum löndum. Lægra verð á vöru, byggðasjónarmið og matvælaöryggi eru þau algengustu. Samfylkingin vill að stuðningi ríkisins við framleiðslu landbúnaðarvara verði breytt og að tekið verði upp árangursríkara fyrirkomulag sem styrkir um leið byggðir, eykur frelsi bænda, gerir nýliðun þeirra auðveldari, stuðlar að nýsköpun, eykur hagkvæmni framleiðslunnar og bætir hag neytenda.
Ungir bændur
Við fyrstu sýn er afar jákvætt að í samningunum er gert ráð fyrir að horfið verði frá framseljanlegu greiðslumarki, sem skaðað hefur hagsmuni yngri og nýrra kúabænda. En það á ekki að gerast fyrr en eftir fimm ár og til staðar er endurskoðunarákvæði sem gæti gert þau áform að engu. Framseljanleikinn hefur leitt til þess að opinber stuðningur, sem ætlaður var til að skapa framboð af góðri vöru á góðu verði, lendir hjá fjármagnseigendum, lánastofnunum og þeim sem hættir eru búskap. Ungur bóndi sem kaupir sig inn í kerfið er því í sömu stöðu og ef enginn opinber styrkur væri í boði. Þessu verður að breyta.
Neytendur
Hvað eru neytendur að fá fyrir þá miklu fjármuni sem settir eru í búvörusamninga? Hvers vegna eru engin skref tekin sem leyfa aukna samkeppni? Mat Samkeppniseftirlitsins er að samningarnir treysti fákeppni í sessi og það sé ekki aðeins skaðlegt fyrir neytendur heldur líka bændur. Koma samningarnir í raun til móts við byggðasjónarmið eða eru það aðeins örfá svæði sem njóta góðs af? Þessum spurningum er enn ósvarað þrátt fyrir ítrekaðar yfirlýsingar ráðherra málaflokksins um að ekki komi til greina annað en að samþykkja samningana. Óboðlegt er að þingmenn og almenningur fái ekki skýrari svör við þessum spurningum áður en frumvörpin koma til afgreiðslu Alþingis nú í haust.
Hvað væri góður samningur?
Skynsamleg landnýting, dýravelferð, sjálfbærni og umhverfisvernd ættu að vera skilyrði fyrir opinberum stuðningi, en nýju samningarnir mæta alls ekki þessum áherslum Samfylkingarinnar og fjölmargra annarra sem hafa gert athugasemdir. Byggðastyrkir eða landræktarsamningar, eins og eru gerðir af hálfu Evrópusambandsins hafa mætt byggðasjónarmiðunum ágætlega og þær áherslur má nýta betur til að efla byggðir landsins og auka fjölbreytni í atvinnulífi.
Gæta þarf mun betur að hagsmunum neytenda sérstaklega þegar semja á til 10 ára, binda hendur Alþingis í meira en tvö kjörtímabil, án sýnilegs ávinnings og neinna kerfisbreytinga sem máli skipta. Stærsta breytingin er á verðlagningu búvöru án þess að útskýrt sé hvernig breytingarnar gagnast almenningi. Mat Samkeppniseftirlitsins er að ef frumvörpin verði að lögum muni það skapa réttaróvissu og skaða almannahagsmuni. Eftir stendur þá spurningin: Fyrir hvern vann ríkisstjórnin þegar hún samdi við bændur?
Greinin birtist í Morgunblaðinu 21. júní 2016