Eldhússdagsræða 23. júní 2020
Góðir landsmenn.
Gleðilegt sumar. Gleðilegt íslenskt sumar.
Í veðurspám næstu daga viljum við helst ekki heyra orðin: Áfram svalt í veðri, hiti breytist lítið. Eða – Lægð yfir landinu með rigningu og súld. Vegna þess að við ætlum að ferðast innanlands og anda að okkur ilmi af birki og nýslegnu grasi.
Við getum huggað okkur við að jafnvel þó að spáin sé ekki góð á öllu landinu í einu þá léttir alls staðar til um síðir.
Og veirufaraldurinn mun ganga yfir. Það kemur kannski bakslag en svo léttir aftur til.
Kærar þakkir heilbrigðisstarfsfólk fyrir alla ykkar vinnu þegar faraldurinn stóð sem hæst. Kærar þakkir lögregla, kennarar og þið öll sem lögðuð ykkur í hættu til að láta samfélagið ganga á erfiðum tímum.
Frá því að fyrstu smitin af covid-19 greindust hér á landi höfum við í Samfylkingunni lagst á árarnar með ríkisstjórninni til að finna greiðar leiðir út úr kófinu. Við höfum þó ekki alltaf verið sammála ríkisstjórninni.
Við viljum til dæmis leggja meiri áherslu á að verja efnahag heimila fólks sem misst hefur vinnuna, á hag barna og þeirra sem standa veikir fyrir. Við viljum, að bæði heimili og fyrirtæki njóti stuðnings ríkisins til að komast yfir erfiða stöðu.
Háar fjárhæðir fara nú úr ríkissjóði til fyrirtækja. Við viljum gera betur svo fyrirtæki eigi auðveldara með að halda ráðningasambandi við starfsfólk sitt, frekar en að leggja áherslu á að hjálpa fyrirtækjum að segja upp fólki.
Og við viljum setja sjálfsögð skilyrði fyrir stuðningi. Okkur finnst algjörlega ótækt að við réttum þeim fjármuni úr ríkissjóði sem hafa verið að nýta sér skattaskjól til að komast hjá því að greiða sinn hlut til samfélagsins.
Jafnaðarmenn hafi ætíð barist gegn skattsvikum. Við getum ekki sætt okkur við að auðmenn nýti sér skattakjól og láti aðra bera þeirra hlut í velferðarkerfinu. Það þarf að vinna gegn því samfélagsmeini. En ríkisstjórnin yppir öxlum. Hún veit af spillingunni en gerir ekkert.
Við í Samfylkingunni viljum að stærri fyrirtæki skili áætlun í loftslagsmálum áður en greiðsla úr ríkissjóði gengur til þeirra. Glærusjó og blaðamannafundir duga ekki í glímunni við loftslagshamfarir af mannavöldum sem stendur yfir og er stærsta viðfangsefni mannkynsins.
Margar aðrar þjóðir hafa sett slík skilyrði þegar þau veita fyrirtækjum aðstoð. En ríkisstjórn Íslands segir að nú sé ekki rétti tíminn. Hvenær ætli rétti tíminn komi til að vinna gegn loftlagsvánni sem ógnar öllu lífi á jörðinni?
Ekki núna, sagði ríkisstjórn Íslands. Þó stendur hún frammi fyrir miklum kostnaði svo milljörðum skipti, vegna þess að Ísland stendur ekki við alþjóðlegar skuldbindingar sínar í loftlagsmálum. Blaðamannafundur ríkisstjórnarinnar fyrr í dag olli vonbrigðum. Við getum og eigum að gera miklu betur.
Krafan þarf að vera grænna samfélag og öflugt atvinnulíf.
Kæru Íslendingar
Með ferðabanni í mörgum löndum og takmörkunum ýmiskonar innan- og utanlands, stendur ferðaþjónustan berskjölduð. Atvinnugreinin sem á örfáum árum varð sú stærsta hér á landi, á í miklum vanda. Hlutfallslegar tekjur þjóðarbúsins af ferðaþjónustunni voru mun hærri hér á landi í fyrra en í þeim löndum sem við berum okkur saman við. Meira að segja hlutfallslega hærri en á Grikklandi. Vandi okkar hér heima verður því annar og meiri en nágrannaþjóðanna að þessu leyti.
Atvinnuleysið hefur vaxið hratt og ástandið víða afar slæmt, svo sem á Suðurnesjum, í Vík í Mýrdal og Skútustaðahreppi. En það er hægt að nefna fleiri staði þar sem stór hluti tekna hefur komið frá ferðaþjónustunni. Til þeirra svæða þarf ríkisstjórnin að líta sérstaklega og stíga inn með sértækar lausnir í samvinnu við sveitarstjórnarmenn á hverjum stað.
Atvinnuleysisbætur eru of lágar. Grunnatvinnuleysisbætur eru langt undir lágmarkslaunum. Við í Samfylkingunni viljum að bæturnar hækki líkt og lágmarkslaunin en þeirri tillögu okkar hefur ríkisstjórnin hafnað.
Fjárstuðningur við heimili þar sem efnahagur hefur hrunið verður því að koma frá sveitarfélögum og frá hjálparstarfi sjálfboðaliða því ríkisstjórnin heldur að sér höndum.
En sveitarfélögin hafa líka misst tekjur. Þeim er ætlað samkvæmt lögum að veita börnum og fötluðum einstaklingum þjónustu ásamt annarri nærþjónustu. Krafan er einnig sú að sveitarfélögin fari í framkvæmdir sem skapi störf og að þau lækki gjöld.
Ríkisstjórnin verður að leggja meira til í framkvæmdir og sóknaráætlanir landshluta. Sveitarfélögin munu ekki ráða við þennan mikla vanda óstudd.
Á Íslandi mælist meiri tekjujöfnuður en meðal flestra annarra þjóða. Samt eru margir hér fátækir og líða skort. Meðal þeirra sem búa við verstu kjörin eru öryrkjar og þeir eldri borgarar sem þurfa að treysta á greiðslur Tryggingastofnunar. Þúsundir barna búa á heimilum sem framfleyta sér undir fátæktarmörkum og mörg íslensk börn fara svöng að sofa.
Á sama tíma maka sumir krókinn. Hafa rakað að sér dæmalausum auði með aðgangi að auðlindum í þjóðarinnar.
Við í Samfylkingunni viljum jafna leikinn og útrýma fátækt. Og við viljum sjá til þess að auðmenn greiði sinn sanngjarna hlut til velferðarinnar. Að arður af auðlindunum renni til þjóðarinnar en ekki svo til allur í vasa fárra fjölskyldna. Þessu verður að breyta því annars erfist ójöfnuðurinn.
Við höfum verið upplýst um hverju fiskveiðistjórnunarkerfið okkar hefur skilað útgerðarfyrirtækinu Samherja og hvernig eigendur þess fyrirtækis hafa nýtt þá góðu stöðu til að græða meira, jafnvel með vafasömum og sem virðist, saknæmum hætti á kostnað fátækrar þjóðar í Namibíu.
Við búum við þá hættu að með samþjöppun aflaheimilda verði ítök fárra svo mikil í íslensku þjóðlífi að þeir verði í aðstöðu til að stýra gjörðum ráðherra ríkisstjórna. Þessari þróun þarf að snúa við og verja sjávarbyggðir landsins.
Spillingarhættan vofir yfir okkur líkt og Namibíu.
Auðlindaákvæði í stjórnarskrá sem heldur er okkur nauðsyn og það er skömm af því hvernig stjórnvöld hafa hunsað tillögur stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá og þjóðaratkvæðagreiðsluna sem fram fór um að leggja þær til grundvallar.
Ágætu landsmenn
Þessir óvenjulegu tímar hafa sent okkur skýr skilaboð.
Heilbrigðiskerfið okkar verður að vera fyrir alla, í fremstu röð og standast álag á öllum tímum. Við verðum að renna fleiri stoðum undir atvinnulífið. Og það þarf að jafna leikinn og útrýma fátækt.
Góðar stundir
Ræða flutt á Alþingi á eldhússdagsumræðum 23. júní 2020