Fólkið og fiskurinn
Stjórnvöld hafa brugðist því mikilvæga hlutverki að skapa eftirliti með sjávarauðlindinni fullnægjandi umgjörð og hefur um leið mistekist að gæta að hagsmunum fólksins í landinu.
Umfjöllun fréttaþáttarins Kveiks í nóvember 2017 og skýrsla Ríkisendurskoðunar sem fylgdi í kjölfarið að beiðni Alþingis, voru ekki aðeins áfellisdómur yfir eftirliti Fiskistofu heldur einnig yfir stjórnvöldum og þeirri umgjörð sem eftirlitinu er skapað. Grípa þarf til markvissra ráðstafana til að tryggja árangursríkt eftirlit sem er í samræmi við forsendur og ákvarðanir Alþingis um að nytjastofnar sjávar séu nýttir með sjálfbærum hætti.
Til að útfæra ábendingar Ríkisendurskoðunar skipaði sjávarútvegsráðherra fimm manna verkefnisstjórn og bakhóp henni til ráðgjafar. Verkefnastjórnin skilaði skýrslu til ráðherra á dögunum um bætt eftirlit með fiskveiðiauðlindinni. Í skýrslunni er að finna gagnlegar upplýsingar um hvernig eftirlitinu er háttað og tillögur til úrbúta um eftirlit á sjó, með vigtun, með samþjöppun aflaheimilda, um nýtingu nýjustu tækni, áhættustýringu og viðurlög við brotum.
Auðlindir þjóðarinnar eiga ekki að vera á höndum fárra. Það gengur gegn almannahagsmunum ef eftirliti með nýtingu auðlindarinnar er ábótavant og enn fremur ef fáum aðilum er gert kleift að fara með stærsta hluta fiskveiðiauðlindarinnar. Mikil efnahagsleg og siðferðileg áhætta er í því fólgin því þar með geta ítök fárra orðið mikil í íslensku þjóðlífi, svo mikil að þeir verða í aðstöðu til að klollvarpa efnahag landsins, byggðaþróun og stýra gjörðum ráðherra.
Fyrir um 20 árum voru samþykkt á Alþingi viðbætur við lög um stjórn fiskveiða sem ætlað var að vinna gegn samþjöppun aflaheimilda. Til þess að lögin þjóni tilgangi sínum ættu endurbætur á þeim, að mínu mati, að taka mið af annarri nýlegi lagasetningu svo sem lögum um fjármálafyrirtæki og lögum um skráningu raunverulegra eigenda.
Standi lögin óbreytt getur einn aðili mögulega farið með allt að 12% af heildarverðmæti aflahlutdeildar fiskiskipa og því til viðbótar átt rétt undir helming í öllum öðrum fiskiskipum sem fara með hin 88 prósentin. Þetta þýðir að sami aðilinn getur farið með meirihluta af heildarverðmæti aflahlutdeildar sem er til skiptanna ár hvert.
Í stað þess að einn aðili þurfi að eiga meirihluta í öðrum til að teljast tengdur aðili, væri eðlilegra að miða við að hámarki 25% eignarhlut, líkt og viðmiðið er í lögum um skráningu raunverulega eigenda. Auk þess að vinna gegn samþjöppun mun þessi breyting auðvelda til muna eftirlit Fiskistofu með hámarksaflahlutdeild.
Með þessari leið viðurkennum við hagkvæmni vegna stærðar en þó ekki á kostnað heildarhagsmuna þjóðarinnar og sjávarbyggða. Það eru þeir hagsmunir sem ávallt þarf að verja.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 13.07.2020