Grænt og gott
Sú staðreynd að kolefnisfótspor Íslendinga sé tvöfalt stærra en annarra Evrópubúa kemur mörgum á óvart. Ef neysla allra jarðabúa væri í samræmi við neyslu Íslendinga þyrfti 27 jarðir til að standa undir henni. Já – svona er Ísland þrátt fyrir sína endurnýjanlegu orku, hitaveitur, hreina loftið og góða vatnið.
Við verðum að breyta neysluvenjum okkar ef við ætlum að ná einhverjum árangri í baráttunni gegn hlýnun jarðar. Til að eiga einhverja möguleika á því að ná árangri í þessu stærsta sameiginlega verkefni mannskyns, þarf vilja almennings til breytinga og pólitískan vilja og kjark stjórnvalda. Við þurfum því að spýta í lófana og snúa slæmri þróun við.
Kolefnisfótsporin okkar eru stærst í samgöngum, matvælum og með innfluttum varningi. Orkuskiptin í samgöngum ganga þokkalega þó enn þurfi að herða á uppsetningu hleðslustöðva fyrir rafbíla og orkuflutningur til hafna landsins þurfi að vera traustari.
Grænmetisframleiðsla
Ég vil beina sjónum mínum í þessari grein að matarvenjum okkar og framleiðslu matvæla. Styrkleikar okkar til aukinnar grænmetisframleiðslu eru miklir í formi endurnýjanlegri raforku, jarðvarma, köldu lofti og fáum pöddum. Við ættum að láta tækniþekkingu vinna með okkur til að auka og auðvelda grænmetisframleiðslu hér á landi og hafa hana að mestu innan dyra.
Athuganir sem gerðar hafa verið fyrir Samband garðyrkjubænda sýna að kolefnisspor íslensks grænmetis er allt niður í 26% af því sem innflutt grænmeti skilur eftir sig. Að meðaltali er um helmingsmunur á losun, íslenskri framleiðslu í hag. Þetta eitt sýnir að mikill umhverfisávinningur væri af aukinni innlendri framleiðslu á grænmeti. Alla jafna má reikna með að kolefnisspor matvæla úr jurtaríkinu sé mun minna en úr dýraríkinu.
Stefna stjórnvalda miðar við að búið verði að kolefnisjafna landið fyrir árið 2030. Það verður ekki gert nema með víðtækum aðgerðum og ein af þeim stóru ætti að vera að efla innlenda grænmetisframleiðslu til að draga úr kolefnismengun sem hlýst af innflutningi. Með því fengist einnig gjaldeyrissparnaður, meira fæðuöryggi, styrking byggða og aukin atvinna. Stjórnvöld ættu að reikna með innlendri grænmetisframleiðslu við endurskoðun áætlunar í loftslagsmálum.
Grænir hvatar
Það er þörf á og hagur af því að ýta undir íslenska grænmetisframleiðslu. Það mætti gera með ýmsum hætti, s.s. með leiðum til að nýta jarðhitann betur, hvetja til nýsköpunar, styrkjum til kaupa á betri búnaði, sparneytnari lýsingu, að hækka gróðurhúsin sem fyrir eru svo afköstin verði meiri og gera styrki til raforkuflutninga markvissari. Hvetja þarf einnig unga bændur til að hefja framleiðslu með lagningu eins konar kynslóðabrúar frá þeim eldri til þeirra sem yngri eru.
Sýnum kjark í baráttunni gegn hlýnun jarðar. Nýtum styrkleika okkar til grænni matvælaframleiðslu – það borgar sig.
Greinin birtist í Dagskránni fréttablaði Sunnlendinga í apríl 2019