Í þjóðarhag - eða sægreifa
Um allt land eru fiskvinnslur í þessari stöðu og eru í rekstrarvanda vegna hráefnisskorts og yfirboða þeirra stærri og stöndugri. Margar þeirra hafa sagt upp fólki undanfarið, hafa þurft að draga saman seglin og munu hætta rekstri ef svo heldur fram sem horfir.
Hagkvæmni stærðar útgerðarfyrirtækja sem kaupa og selja óunninn fisk úr landi í stórum stíl og þjóðarhagur fara hér ekki saman. Og því er það þyngra en tárum taki að ráðherrar taki málið ekki alvarlega – ekki ráðherra byggðamála, formaður Framsóknarflokksins, Sigurður Ingi Jóhannsson, ekki ráðherra vinnumarkaðsmála, Framsóknarmaðurinn Ásmundur Einar Daðason, ekki fjármálaráðherra, formaður Sjálfstæðisflokksins, Bjarni Benediktsson, né sjávarútvegsráðherra, Sjálfstæðismaðurinn Kristján Þór Júlíusson. Þetta er óheillaþróun sem veldur atvinnuleysi, fólksflótta frá landsbyggð og færir ríkissjóði og sveitarfélögum lægri tekjur.
Eigi fiskvinnslur sem treysta á fiskmarkaði að lifa af þarf strax að finna lausn. Eða er stjórnvöldum alveg sama um þessa þróun? Skiptir gróði og arðgreiðslur stórútgerðarinnar ríkisstjórnina meiru en atvinna og kjör íslenskra samfélaga víða um land? Hverjir vinna allan þennan óunna fisk? Hverjir eru það sem eiga svo gott skjól hjá ríkisstjórninni?
Hvað væri hægt að gera? Við getum t.d. sett í lög að umtalsvert stærri hluti afla fari á markað. Þá væri erfiðara að sprengja upp verð og gera fáum stórum aðilum kleift að ryksuga upp afla á markaði og flytja úr landi. Við gætum líka lögleitt hvata til að vinna aflann hér á landi. Eigum við að vera hráefnisnáma fyrir auðuga aðila eða á vinnsla vörunnar að fara fram hér landi? Ýmis úrræði eru í boði til að snúa við þessari óheillaþróun – standi manni ekki á sama um hana.
Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu