Innviðir sem varða þjóðaröryggi og almannahag
Ég hef lagt á það áherslu að stjórnvöld seti skilyrði fyrir sölu fjarskiptafyrirtækisins Mílu ehf til erlends fjárfestingarsjóðs sem verja þjóðaröryggi og almannahag. Samkvæmt lögum um erlenda fjárfestingu í atvinnurekstri rennur frestur til að gera slík skilyrði út 17. desember næstkomandi.
Margir hafa tekið undir varnaðarorð mín um þessa sölu og mikilvægi þess að innviðir sem varða þjóðaröryggi og almannahag gangi ekki kaupum og sölum án skilyrða sem halda. En vegna þess hef ég líka sætt gagnrýni, einkum frá hægrimönnum.
Þeir stjórnast af trú á því að markaðurinn taki alltaf og óhjákvæmilega bestu ákvarðanirnar en eins og markaðurinn getur verið ágætur þá virkar hann ekki vel í fákeppni eins og á við um starfsemi Mílu. Fjárhagslegur ávinningur eigenda fyrirtækisins og þjóðaröryggi þurfa ekki alltaf að fara saman og tryggja þarf að þegar þeir hagsmunir stangast á fái þjóðaröryggið að ráða.
Frá vinstri hef ég verið gagnrýnd af einum áhrifamanni í VG, Úlfari Þormóðssyni sem kallar mig þjóðernispopúlista og rasista hvorki meira né minna. Svo mikilvægt virðist honum finnast að salan gangi snuðrulaust fyrir sig að hann veður með gífuryrðum inn á völlinn og reynir að taka þingmann niður eins harkalega og hægt er í þeirri von að fólkið taki ekki mark á varnaðarorðunum. Vonandi sér fólk í gegnum þann auma málflutning.
Fjarskipti verða æ mikilvægari eftir því sem tækninni fleygir fram og svo er komið að mikilvægustu innviðir samfélagsins treysta á að fjarskipti séu áreiðanleg, samræmist þjóðaröryggi og falli undir lögsögu okkar.
Mörg ríki og alþjóðastofnanir hafa tekið til skoðunar hvernig grunnþjónustu mikilvægra innviða verði útvistað og að hve miklu leyti slík þjónusta megi vera í höndum erlendra fyrirtækja. Enda nokkuð augljóst að öryggisógn getur verið fólgin í því að samfélag verði of háð tiltekinni tækni eða kerfi sem opinberir aðilar hafa misst alla stjórn á.
Hvað er Míla?
Nánast öll tal- og gagnafjarskipti við útlönd fara um ljósleiðaratengingar á landi og síðan um þrjá sæstrengi sem tengja Ísland við umheiminn. Alvarlegt sambandsrof sæstrengjanna eða ljósleiðaratengingar á landi, getur gert Ísland að mestu sambandslaust við umheiminn og haft alvarlegar afleiðingar fyrir hagsmuni íslenska ríkisins, jafnt efnahags-, öryggis-, varnar- og almannahagsmuni líkt og bent er á í skýrslu þjóðaröryggisráðs frá því í febrúar á þessu ári um mat á ástandi og horfum í þjóðaröryggismálum.
Þar segir: „Innan Íslands tengjast sæstrengirnir við stofnljósleiðaranetið sem er hringtenging um landið. Þessi stofnljósleiðari er mikilvægur hlekkur í öllum fjarskiptum hér á landi. Flest fjarskiptakerfi, hvort sem um er að ræða minni ljósleiðaranet á landsbyggðinni eða farnet fjarskiptafyrirtækja, tengjast inn á þennan stofnljósleiðarastreng. Þessi stofnljósleiðarastrengur er að 5 /8 hlutum í eigu Mílu ehf. og að 3 /8 hlutum í eigu NATO. Míla ehf. sér um rekstur og viðhald allra þráðanna átta í strengnum.“
Ljósleiðarastrengirnir eru undirstaða flestra fjarskiptakerfa sem notuð eru á Íslandi, þar á meðal símkerfis, farsímakerfis, Tetraneyðarfjarskiptakerfis, mikilvægra gagnatenginga fyrir helstu stoðkerfi landsins og almennrar internettengingar landsmanna.
Starfsemi sem ekki má rofna
Öllum má ljóst vera að lög okkar og reglur um innviði sem varða þjóðaröryggi eru vanbúin. Enda eru heildarlög í undirbúningi í forsætisráðuneyti, fjarskiptalög í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti og lög um erlendar fjárfestingar í atvinnulífinu til endurskoðunar í ferða-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytinu. Þar sem lögin sem eru í gildi verja almenning ekki nægilega verður að setja skilyrði fyrir sölunni sem halda.
Við snúum víst ekki tímanum við til að leiðrétta þau afglöp sem gerð voru með sölu Símans. En við getum sett lög og regluverk sem tryggir viðhald, öryggi og heimild yfirvalda til að taka fyrirtækið yfir ef neyðarástand skapast eða einkaaðilinn er ekki hæfur til að sinna svo mikilvægri starfsemi. Það verður að koma i veg fyrir að eigendur geti af geðþótta eða vegna vanhæfni lamað íslenskt samfélag, farið með fyrirtækið út fyrir lögsögu Íslands eða selt úr landi nauðsynleg tæki til starfseminnar.