Líf og heilsa
Engum dettur í huga að halda því fram að Íslendingar hafi ekki efni á að veita góða heilbrigðisþjónustu fyrir alla. Við stjórnmálamenn verðum að svara spurningunni um hvernig almannafé nýtist best og hvernig við gerum heilbrigðisstofnunum kleift að halda góðum mannauði og mæta þörfum sjúklinga um land allt. Það þarf að svara kalli fólksins í landinu um að heilbrigðisþjónustu verði raðað framar þegar að fjármunum er úthlutað úr ríkiskassanum.
Sjúklingaskattar
Þegar við veikjumst þurfum við að borga fyrir læknisþjónustu, lyf, þjálfun og hjálpartæki. Upphæðirnar eru orðnar svo háar að flestir Íslendingar þekkja einhvern sem hefur frestað því að fara til læknis eða sparað við sig þjálfun sem flýtir fyrir bata. Augljóslega leiðir slíkt til aukins kostnaðar síðar þar sem fullir kraftar fólks fá ekki notið sín. Í dag þurfa alvarlega veikir einstaklingar að greiða hundruð þúsunda úr eigin vasa og langveikir greiða oft verulegan hluta af mánaðarlegum tekjum sínum til heilbrigðisþjónustu. Þetta er grafalvarlegt mál og við eigum ekki að sætta okkur við þessa stöðu. Alls eru íslenskir sjúklingar að greiða rúma 30 milljarða króna úr eigin vasa fyrir heilbrigðisþjónustu til viðbótar við skattgreiðslur. Gjaldfrjáls heilbrigðisþjónusta ætti að vera aðalsmerki íslenska velferðarkerfisins. Ég vil að við byrjum á því að lækka greiðslur langveikra og tökum svo markviss skref að ókeypis heilbrigðisþjónustu sem stenst samanburð við önnur Norðurlönd.
Nýr Landspítali
Það er augljóst að aðstæður Landspítalans eru algjörlega óviðunandi. Spítalinn starfar á mörgum stöðum um borgina og húsakostur er víða svo lélegur að hann ber ekki nýjustu tæki og tól. Verið er að ganga frá teikningum á nýjum meðferðarkjarna í nálægð við háskólanna. Við þurfum að hefja þessa uppbyggingu sem allra fyrst.
Samstillt þjónusta
Ég vil að heilsugæslan jafnt á höfuðborgarsvæðinu sem um allt land verði rekin í samstarfi ríkis og sveitarfélaga. Tvö sveitarfélög, Akureyrarbær og Höfn í Hornarfirði, hafa með samningum við ríkið reynslu af því að samþætta félagsþjónustu og heilbrigðisþjónustu með góðum árangri. Samstillt þjónusta bætir líf og heilsu þeirra sem þurfa á henni að halda.
Heilsugæslustöðvar og heilbrigðisstofnanir tilheyra grunnstoðum velferðarkerfisins og að þeim eiga allir að hafa jafnan aðgang án tillits til efnahags. Að þessu þurfum við að gæta nú þegar hugmyndir um aukinn einkarekstur í heilbrigðiskerfinu eru háværar. Einkarekstur getur ekki komið í staðinn fyrir trausta opinbera heilbrigðisþjónustu. Aldrei má vafi leika á því hvort hagsmunir sjúklinga eða rekstraraðila vegi þyngra.