Neytendastofa lögð niður í áföngum - nefndarálit

Nefndarálit með frávísunartillögu

um frumvarp til laga um breytingu á lögum um Neytendastofu og fleiri lögum (stjórnsýsla neytendamála).

Frá 1. minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar (Oddný g. Harðardóttir).


    Fyrsti minni hluti furðar sig á því að ráðherra neytendamála leggi fram þær breytingar sem frumvarpið kveður á um án þess að farið hafi verið í heildarstefnumótun fyrir málefni neytenda. Málefni neytenda hér á landi hafa liðið fyrir hringlandahátt og skort á framtíðarsýn líkt og Neytendasamtökin benda á í umsögn sinni um frumvarpið.

    Frumvarpið ber þess merki að vera ekki vel undirbúið. Engin vönduð rannsókn eða greining hefur farið fram á tilhögun neytendamála hér á landi og ekki liggur fyrir hvaða fyrirkomulag sé best til framtíðar. Engin óháð úttekt hefur farið fram á starfsemi Neytendastofu eða flutningi verkefna frá stofnuninni.

    Önnur norræn ríki hafa öfluga neytendavernd og mættu stjórnvöld líta til reynslu þeirra og skoða vel kosti og galla þess að setja á fót embætti umboðsmanns neytenda sem hefði ríkar valdheimildir. Neytendaréttarsvið gæti heyrt undir slíkt embætti svo dæmi sé tekið. Neytendamál eru mjög mikilvæg og brýnt að þeim sé búinn skýr rammi til framtíðar. Órökstuddar breytingar eru málaflokknum síst til framdráttar.

    Leiðbeiningar fjármála- og efnahagsráðuneytisins um sameiningu ríkisstofnana sem einnig eiga við um flutning verkefna á milli stofnana hafa verið hunsaðar við samningu frumvarpsins. Í leiðbeiningunum kemur meðal annars fram að hlutaðeigandi ráðuneyti þurfi að gæta þess að breytingin sé vel undirbúin. Fyrsta skrefið sé að fela hópi manna að gera frumathugun áður en ákvörðun sé tekin. Vinnan felist einkum í því að fjalla um stöðuna, móta framtíðarsýn, setja skýr markmið með breytingunni, velja viðmiðanir, skoða valkosti, greina hindranir og fjalla um álitamál. Tilfærsla á verkefnum á milli stofnana fylgi yfirleitt bæði kostir og gallar sem ætti að vega og meta með tilliti til annarra valkosta. Ekki eigi að breyta breytinganna vegna heldur sem leið til að ná öðrum markmiðum.

    Höfuðmarkmið frumvarpsins virðist vera að fækka ríkisstofnunum. Það getur verið ágætt markmið í sjálfu sér ef með tilfærslu verkefna fengist faglegur ávinningur og betri þjónusta eða fjárhagslegur ávinningur án þess að fagleg sjónarmið og hagur almennings sé fyrir borð borinn.

    Í leiðbeiningum fjármála- og efnahagsráðuneytisins kemur einnig fram að mikilvægt sé að ráðuneyti hrindi ákvörðun um breytingar strax í framkvæmd til að eyða óvissu og gæta þurfi sérstaklega að mannlega þættinum. Alltaf megi búast við að skoðanir verði skiptar um breytingarnar og fólk sjái bæði ógnir og tækifæri í þeim. Til þess að auka samstöðu starfsfólks er því afar mikilvægt að vekja sem mestan áhuga á framtíðarsýninni og markmiðunum sem stefnt er að.

    Fyrsti minni hluti telur ljóst að ráðherra neytendamála hafi ekki kynnt sér leiðbeiningar fjármála- og efnahagsráðuneytisins áður en mælt var fyrir frumvarpinu, því alls ekki er gætt að starfsmönnum Neytendastofu og með greinargerð frumvarpsins er ýtt undir óvissu um framtíð stofnunarinnar.

    Í greinargerð frumvarpsins stendur á bls. 8: „Í stað einnar miðlægrar ríkisstofnunar sem fari með verkefni er varði hagsmuni neytenda með einum eða öðrum hætti er stefnt að því að færa verkefnin til annarra viðeigandi stofnana. Markmið endurskoðunarinnar er að fækka ríkisstofnunum og auka skilvirkni og hagkvæmni eftirlits í þágu atvinnulífs og neytenda.“ Á bls. 10 í greinargerðinni segir: „Ekki er gert ráð fyrir að Neytendastofa verði lögð niður heldur að Neytendastofa sinni enn um sinn verkefnum á sviði neytendaréttar. Neytendastofa getur þannig óskipt sinnt eftirliti með hinni eiginlegu neytendaréttarlöggjöf í samræmi við nýlegar breytingar á eftirliti stofnunarinnar með lögum um breytingu á ýmsum lögum vegna samvinnu stjórnvalda á Evrópska efnahagssvæðinu um neytendavernd, nr. 21/2020. Unnið er að endurskipulagningu þeirra verkefna með hugsanlegri tilfærslu þeirra til annarrar stofnunar árið 2021.“ Þetta þýðir að Neytendastofa verður afar lítil stofnun.

    Verði frumvarpið samþykkt munu öll verkefni Neytendastofu sem ekki heyra beint undir neytendaréttarsvið verða flutt annað. Verkefnum er skipað undir stofnanir sem sinna ólíkum verkefnum. 1. minni hluti tekur undir áhyggjur Neytendasamtakanna sem snúa að því að áherslur til að mynda Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar verði ómarkvissar, verkefnin stór og ólík og lítil samlegð með þeim. Í umsögn Neytendasamtakanna segir um þetta: „Þannig þekkja Neytendasamtökin ekki til stofnana í öðrum löndum sem bæði veita húsnæðislán og hafa umsjón með framkvæmd löggildingareftirlits með mælitækjum fyrirtækja. Þá er ákveðin hætta á að neytendamálin tvístrist um kerfið með þeim breytingum sem hér er verið að leggja til.“

    Fyrsti minni hluti gagnrýnir harðlega að heildarstefnumörkun með skýrri framtíðarsýn hafi ekki farið fram áður en þau skref eru tekin sem frumvarpið boðar. Það er ekkert annað en slæm framkoma við starfsfólk Neytendastofu að ýta undir óvissu um starfsumhverfi og starfsöryggi starfsfólksins með skilaboðum sem ráðherra málaflokksins sendir þeim í gegnum greinargerð með frumvarpi.

    Fyrsti minni hluti leggur til að málinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar sem setji strax í gang vinnu við vandaða stefnumótun í málefnum neytenda.

Alþingi, 10. mars 2021.

Oddný G. Harðardóttir.