Ódýr og örugg notkun greiðslukorta

Ódýr og örugg notkun greiðslukorta

Hvers vegna er notkun greiðslukorta og greiðslumiðlunar hér á landi margfalt dýrari fyrir okkur Íslendinga en íbúa hinna norrænu ríkjanna? Svarið er að það er að mestu vegna þess að greiðslulausnir okkar eru allar háðar erlendum aðilum. Heimildargjöf og uppgjör innlendra debetkorta fer fram erlendis. Þó kostnaður vegna íslensku krónunnar og færri íbúa spili einnig eitthvert hlutverk vegur hitt þyngra.

Þetta þýðir að íslenskir neytendur eru ekki bara að greiða til íslenskra banka heldur borga þeir einnig til Visa og Mastercard í útlöndum. Hagnaður bankanna af þessu fyrirkomulagi hleypur á milljörðum. Þetta virkar vel bæði fyrir verslanir og banka en er okkur neytendum allt of kostnaðarsamt við óbreyttar aðstæður, því allir milliliðir vilja sitt á öllum stöðum. Við neytendur borgum og getum ekki annað.

Og við bætist að þetta fyrirkomulag getur ógnað þjóðaröryggi líkt og Már Guðmundsson þá Seðlabankastjóri benti á árið 2019 með bréfi til Þjóðaröryggisráðs. Þó að það sé ekki mjög líklegt við núverandi aðstæður að kortafyrirtækin loki á Ísland þá gæti það gerst. Okkur fannst svo sem ekki heldur líklegt að Bretar settu á okkur hryðjuverkalög á sínum tíma, en þeir gerðu það samt.

Óháðar lausnir

Við þurfum sjálfstæðar og óháðar greiðslulausnir. Lausnir sem eru bæði ódýrari en þær sem við búum við og öruggari. Krafan ætti að vera sú að ávallt séu til staðar virkar lausnir sem lúta í einu og öllu íslenskri löggjöf um eignarhald, umráða- og notkunarrétt og eru algjörlega óháðar inngripum erlendra aðila sem gætu ógnað innlendri greiðslumiðlun og fjármálastöðugleika.

Um greiðslumiðlun og fjármálainnviði er fjallað í Hvítbók um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið, sem kom út haustið 2018. Þar segir m.a. þetta: „Fram fari mat á því hvaða kerfislega mikilvægu innviðir eigi að standa utan samkeppnisumhverfis til að tryggja þjóðhagsvarúð og hagkvæmni í bankakerfinu. Skoða má hvort æskilegt sé að stjórnvöld gangi lengra í viðleitni til að auka samfélagslegan ábata af samstarfi í innviðum.“

Það þarf einmitt að auka samfélagslegan ábata og tryggja þjóðaröryggi. Við í Samfylkingunni vildum að sala á hlutum ríkisins í bönkunum færi ekki fram fyrr en framtíðarsýn hefði verið rædd meðal almennings um það hvernig bankakerfi þjónaði hagsmunum okkar best. Svara þyrfti þeirri spurningu hvernig bankakerfi tryggi góða og trausta þjónustu við fólk og fyrirtæki með fjölbreytni, samkeppni, öflugu eftirliti, neytendavernd og öruggri ódýrri innlendri greiðslumiðlun.

En ríkisstjórnin og stjórnarflokkarnir vildu selja sem mest strax og hirtu ekki um að gera þyrfti breytingar á kerfinu til að tryggja hagsmuni almennings. Enn stendur yfir skoðun Ríkisendurskoðunar á sölu á hlutum í Íslandsbanka. Mér finnst blasa við að þar sé maðkur í mysunni.

Norrænar lausnir

Hin norrænu ríkin búa við innlendar greiðslulausnir en þær tala ekki saman á milli landanna ef svo má segja. Á fundi forsætisnefndar Norðurlandaráðs á dögunum var samþykkt að Norðurlandaráð beini þeim tilmælum til Norrænu ráðherranefndarinnar að vinna að sameiginlegu rafrænu greiðslukerfi á Norðurlöndum, vinna að því að öll Norðurlöndin styðji hugmyndina um sameiginlegt rafrænt greiðslukerfi í löndunum og að stuðla að aukinni samstöðu um framkvæmd eftirlits á markaði fyrir greiðsluþjónustu á Norðurlöndum.

Hvers vegna draga íslensk stjórnvöld lappirnar í þessum efnum? Er það vegna þess að bankarnir muni við breytingu missa spón úr aski sínum? Eru hagsmunir nýrra eigenda bankanna svo mikilvægir að fara verði ofan í vasa almennings til að tryggja þeim aukinn hagnað? Eru stjórnvöld hrædd um að ef þessu verði breytt verði hlutirnir í bönkunum ekki eins söluvænir?

Stjórnvöld og Seðlabanki Íslands þurfa að girða sig í brók strax og þó fyrr hefði verið og tryggja óháða sjálfstæða fjármálainnviði, óháðar og ódýrar innlendar greiðslulausnir.

Greinin birtist fyrst á visir.is 1. júlí 2022.