Peningana eða lífið
Íslenskt heilbrigðiskerfi byggir á heilbrigðisþjónustu sem bæði er í opinberum rekstri og í einkarekstri. Lögin um sjúkratryggingar setja ramma um samningsgerð við einkarekna heilbrigðisþjónustu. Markmið laganna er að tryggja aðstoð til verndar heilbrigði og jafnan aðgang að heilbrigðisþjónustu óháð efnahag.
Vorið 2017 tók í gildi nýtt greiðsluþátttökukerfi sem ætlað var að lækka útgjöld þeirra sem þurfa á mikilli heilbrigðisþjónustu að halda með því að tryggja að einstaklingar greiddu ekki meira en ákveðna hámarksupphæð fyrir þjónustuna og að börn, aldraðir og öryrkjar greiði lægri upphæð en aðrir.
Því miður hafa, hvorki markmið greiðsluþátttökukerfisins né markmiði laganna um að tryggja sjúkratryggðum aðstoð óháð efnahag, náðst undanfarin ár þar sem samningar við sérfræðilækna og sjúkraþjálfara hafa verið lausir í fjögur ár. Á þeim tíma hafa veitendur þjónustunnar lagt á aukagjöld einkum til að mæta kostnaðarhækkunum vegna hækkandi verðbólgu og verðlags. Þannig er fólki gert að greiða ýmis aukagjöld sem ekki telja inn í greiðsluþáttökukerfið þurfi það á þjónustu sérfræðilækna og sjúkraþjálfara að halda
Ekkert í lögum um sjúkratryggingar tryggir sjúklinga gagnvart slíkum kostnaði sem leiðir af sér þá óviðunandi stöðu að það eru sjúklingarnir sem bera þann kostnað sem hlýst af samningsleysi. Sá kostnaður leggst þyngst á öryrkja sem flestir eru langveikir og einnig líklegri en aðrir til að búa við fátækt.
Í núverandi ástandi er þar með farið á svig við markmið laga um sjúkratryggingar og lög um heilbrigðisþjónustu í landinu auk þess sem greiðsluþátttökukerfið virkar ekki. Í þeim komugjöldum sem sjúklingar þurfa að greiða og koma til viðbótar greiðslna sem reiknast inn í greiðsluþátttökukerfið, er ekki tekið tillit til ólíkrar stöðu þeirra, s.s. barna, öryrkja eða aldraðra.
Nauðsynlegt er að bregðast við því óviðunandi ástandi sem nú ríkir þar sem einungis þeir sem hafa ráð á að greiða umtalsverðar upphæðir utan greiðsluþátttökukerfisins geta nýtt sér þjónustu sérfræðilækna og sjúkraþjálfara í einkarekstri.
Ég er fyrsti flutningsmaður frumvarps Samfylkingarinnar sem tryggir að greiðsluþátttöku sjúklinga verði haldið í lágmarki auk þess sem kveðið er á um afleiðingar þess ef samningaviðræður milli sérfræðinga í einkarekstri og ríkisins eru árangurslausar lengur en í 9 mánuði. Með því skapast aukinn þrýstingur á samningsaðila og eykur líkurnar á því að samningum ljúki innan settra tímamarka.
Ríkisstjórnarflokkarnir hafa nú í fjögur ár vitað af þessum brotum á lögum um heilbrigðisþjónustu, sjúkratryggingar og greiðsluþátttöku sjúklinga og látið óátalið að heilbrigðiskerfið sé í raun aðeins fyrir þá sem eru í efnum til að sækja sér heilbrigðisþjónustu.