Pólitísk jólakveðja
Kæru vinir.
Árið 2021 rennur senn sitt skeið. Árið hefur sannarlega verið sérstakt með heimsfaraldri og sóttvarnaraðgerðum, stundum ströngum og stundum ekki. Heimsfaraldurinn hefur dregið bæði fram veikleika og styrkleika í íslensku samfélagi.
Augljósi veikleikinn er í heilbrigðiskerfinu og stjórnvöld verða að horfast í augu vandann. Þar er ekki ástand sem ríkisstjórnin stendur af sér með plástrum hér og þar og án raunverulegra aðgerða sem virka. Almenningur mun ekki sætta sig við áframhaldandi sveltistefnu og við í Samfylkingunni munum fylgja kröfum almennings fast eftir.
Almenningur ber annars ekki mikið traust til stjórnmálanna. Fyrir mörgum er Alþingi Íslendinga staður þar sem stjórnmálamenn leika pólitíska leiki sem ætlaður er fáum og fyrir fáa útvalda.
Og slíkir leikir geta sannarlega dregið dilk á eftir sér þannig að almenningur beri skaðann. Skýrt dæmi er einkavæðing bankanna sem leiddi til bankahrunsins haustið 2008. Og ríkisstjórn Katrína Jakobsdóttur ætlar að halda áfram með söluna á Íslandsbanka eins og þau hafi ekkert lært af fortíðinni og án þess að tryggja kerfisbreytingu í bankakerfinu sem ver viðskiptavini bankanna og almenning allan.
Annað dæmi sem blasir við í dag er sala Símans árið 2005. Sú ákvörðun sem tekin var af Framsókn og Sjálfstæðisflokki mun leiða til þess að grunninnviðir fjarskipta á landinu verða innan skamms í eigu erlends fjárfestingasjóðs, ef að líkum lætur. Við getum ekki breytt tímans rás en við verðum að bregðast við núna vegna sölunnar á Mílu til að verja hag almennings. Það væru stórkostleg mistök að ganga frá sölunni án þess að stjórnvöld setji skýr skilyrði og Alþingi telji tryggt að þjóðaröryggis sé gætt.
Við höfum áður tekist á við erfiðleika og snúna stöðu bæði efnahagslega og félagslega. Við jafnaðarmenn ætlum að læra af þeirri reynslu en vera jafnframt með hugann allan við framtíðina, framtíð Íslands og þeirra sem hér búa. Hugsjónir okkar snúast ekki um fáa útvalda – heldur um okkur öll.
Farið vel með ykkur kæru vinir og farið að ráðum Þórólfs í heimsfaraldri. Það borgar sig til lengri tíma.
Gleðileg jól!