Ræða á þingi Norðurlandaráðs í Malmö 21.-22. mars 2022
Innrás Rússa í Úkraínu er jafnframt árás á öll frjáls og opin samfélög og þau gildi sem við aðhyllumst á Norðurlöndum. Þetta er líka árás á okkur.
Spurningar vakna: Áttum við tækifæri til að koma í veg fyrir þessi voðaverk? Slíkir þankar eru samt til þess fallnir að draga athyglina frá þeim sem sökina ber. Stríðið hefði aldrei átt að skella á – ekki fremur en önnur óhæfuverk í heiminum sem bitna alltaf verst á saklausu fólki.
Við finnum til með þeim sem þjást vegna stríðsins. Og við leitum allra leiða til að hjálpa nauðstöddum og til að styðja og uppörva fórnarlömb ofbeldisins.
Við veltum því stöðugt fyrir okkur hvernig okkar lönd geta gert betur til að hjálpa fólkinu í Úkraínu. Við viljum opna faðminn og taka á móti fólki á flótta undan hörmungunum. Við sendum vistir til Úrkaínu og fjármuni. Við höfum öll lagt áherslu á mannúðarstarf. Við glímum við afleiðingar orðinna hryllingsverka.
Getum við gert fleira? Við þurfum að vera vakandi fyrir ógnum sem stafa frá hreyfingum þjóðernispopúlista í Evrópu. Við þurfum að berjast saman fyrir frelsi og lýðræði. Það hefur stríðið sýnt okkur.
Norðurlöndin eru samfélög friðar, frelsis, lýðræðis og mannréttinda. Orðspor okkar sem talsmenn friðar er þekkt. Við ættum að stíga fram sem ein heild og beita okkur fyrir virku samtali um frið á milli stríðandi fylkinga. Höfum framgöngu um að stilla til friðar í þessu tilgangslausa stríði.