Réttur Suðurnesjamanna
Íbúum Suðurnesja hefur fjölgað um 50% frá árinu 2008. Fjárveitingar til Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja hafa á sama tíma dregist saman um 27% á hvern íbúa landshlutans. Heilbrigðisráðherra og stjórnarþingmenn setja starfsmenn stofnunarinnar í klemmu. Eiga þeir að vinna eftir lögum um heilbrigðisþjónustu og heilbrigðisstefnu stjórnvalda eða miða þjónustuna við fjármagn sem ríkið skaffar? Himinn og haf er þar á milli. Á meðan íbúum hefur fjölgað um 50% hafa fjárveitingar til HSS aukist um 8%. Dæmið gengur einfaldlega ekki upp.
Með yfirlýsingu sem forstöðumaður HSS birti á heimasíðu stofnunarinnar, bendir hann á það augljósa. Stofnunin er fjársvelt. Íbúar Suðurnesja njóta fyrir vikið ekki þeirrar þjónustu sem þeim ber.
Þegar stjórnarþingmenn mótmæla og fella tillögur frá mér um aukna fjárveitingar til HSS segja þau að vandi stofnunarinnar sé mönnunarvandi og fjárveitingar geti ekki lagað hann. En það er rangt.
Það er hægt að gera svo margt fyrir peninga til að halda heilbrigðisstarfsfólki í starfi og laða þau að sem yfirgefið hafa starfsvettvanginn. Í því sambandi er hægt að nefna ýmsar úrbætur á vinnustað og bættar starfsaðstæður sem skapa mannsæmandi og öruggt starfsumhverfi. Kaupa ný tæki og tól, vinna gegn óhóflegu álagi og bjóða starfskjör sem viðhalda starfsánægju starfsmanna. Það þarf líka að gæta að heilsu starfsmannanna sjálfra, öryggi þeirra á vinnustað og andlegri vellíðan. Fyrir fjölmenningarsamfélag er nauðsynlegt að fá aukið fjármagn til túlkaþjónustu.
Nú er nýtt fjárlagafrumvarp í undirbúningi. Fjármálaráðherra kynnir það í byrjun september. Krafan hlýtur að vera sú að þar verði gerðar ráðstafanir til að styrkja HSS. Stofnunin sem er hornsteinn samfélagsins á Suðurnesjum er í vanda og ábyrgðin er stjórnvalda, heilbrigðisráðherra og stjórnarþingmanna.
Þolinmæðin er á þrotum. Stjórnvöld eiga ekki að fá að sýna okkur slíka vanvirðingu árum saman. Tryggja verður með skýrum hætti rétt okkar Suðurnesjamanna og aðgengi að nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu.
Ég stend heilshugar með forstöðumanni og öðru stafsfólki HSS þegar þau benda með rökum á að líta verður til fjölda íbúa og samsetningu þegar fjárveitingar eru ákveðnar til grunnþjónustu sem lögbundin er og ríkið á að veita.
Greinin birtist fyrst í Víkurfréttum 28. júní 2023