Samkeppni og valdatafl

Samkeppni og valdatafl

Íslenskt viðskiptalíf er lítið og einangrað í samanburði við alþjóðleg markaðssvæði. Hér á landi er því enn mikilvægara að hafa virkt eftirlit með samkeppni en í stærri löndum. Með veiku eftirliti geta fyrirtæki nýtt sér aðstæður til að skapa einokunarstöðu sem vinnur gegn almannahag. Stór fyrirtæki á hinum litla íslenska markaði hafa mikla hagsmuni af því að draga úr samkeppni og þá ekki síst að draga úr eftirliti með samkeppnisreglum. Fyrir almenning er það hins vegar gríðarlegt hagsmunamál að hér sé heilbrigt samkeppnisumhverfi.

Hlutverk Samkeppniseftirlitsins er m.a. að fylgjast með þróun samkeppnis- og viðskiptahátta, kanna stjórnunar- og eignatengsl á milli fyrirtækja, leita uppi hringamyndun, óæskileg tengsl eða valdasamþjöppun sem takmarkar samkeppni og grípa til aðgerða sem tryggja virka samkeppni.

Í október síðast liðnum kynnti Samkeppniseftirlitið ákvörðun sína um að kortleggja stjórnunar- og eignatengsl sjávarútvegsfyrirtækja. Athugunin tekur til sjávarútvegsfyrirtækja sem fengu úthlutað kvóta á yfirstandandi fiskveiðiári. Um 307 fyrirtæki er að ræða, þar af fara 20 stærstu fyrirtækin með nær 73% af þeirri úthlutun.

Athugunin á að varpa ljósi á eignarhald eins sjávarútvegsfyrirtækis í öðrum sjávarútvegsfyrirtækjum, í öðrum fyrirtækjum án tillits til þess á hvaða sviði þau starfa og áhrifavald í gegnum beitingu atkvæðisréttar og stjórnarsetu í þessum fyrirtækjum.

Þó að íslensk sjávarútvegsfyrirtæki starfi á alþjóðlegum mörkuðum og um fiskveiðistjórnun séu sérlög um hámarksaflahlutdeild þá er ómögulegt að líta fram hjá því að markaðir innanlands eru á ýmsum sviðum. Viðskipti með aflaheimildir, tilteknar tegundir veiða, vinnslu sjávarafla, fiskmarkaði og útflutning afurða þar sem samþjöppun getur haft mikil áhrif á efnahagslíf og hag almennings. Auk þess eiga íslensk sjávarútvegsfyrirtæki hluti í fjölbreyttri flóru fyrirtækja, s.s. í framleiðslu annarra matvæla en sjávarafurða, veitingarekstri, byggingariðnaði og tengdri  starfsemi, tryggingum, flutningum, ferðaþjónustu, nýsköpun af ýmsu tagi og fjölmiðlun.

Yfirsýn um stjórnunar- og eignatengsl í íslenskum sjávarútvegi er augljóslega nauðsynleg ef koma á í veg fyrir blokkamyndun.

Ég fagna þessari athugun Samkeppniseftirlitsins. Það gera hins vegar gæslumenn sérhagsmuna og einokunarsinnar ekki. Leiðarahöfundur Morgunblaðsins kallar hana pólitíska fiskiferð og valdníðslu sem verði að hrinda og eigandi Brims hf, eins stærsta sjávarútvegsfyrirtækis landsins, neitar að gefa Samkeppniseftirlitinu upplýsingar.

Valdatafl stendur yfir milli almannahagsmuna og sérhagsmunaafla sem vilja gera Samkeppniseftirlitið veikt og sér leiðitamt. Mikilvægt er að niðurstaðan verði almenningi í hag.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 24. júlí 2023. Myndin tekin af vefnum midjan.is.