Seðlabanki, sjávarútvegur og sjúkratryggingar

Seðlabanki, sjávarútvegur og sjúkratryggingar

Dagana 20. - 24. febrúar ræddi ég um S-in þrjú: Sjúkratryggingar, sjávarútveg og Seðlabankann.

Sjúkratryggingar 
Heilbrigðiskerfið okkar er byggt upp á heilbrigðisþjónustu í opinberum rekstri og einnig þjónustu í einkarekstri.
Á meðan samningar nást ekki milli ríkisins og sérgreinalækna í einkarekstri greiða sjúklingar dýrum dómum fyrir heilbrigðisþjónustu sem á samkvæmt lögum að vera aðgengileg óháð efnahag.
Enginn hvati er fyrir ríkið að semja því ef samningar nást þarf ríkið að greiða meira fyrir þjónustusamningana. Ekki er heldur hvati hjá sérgreinalæknum því þeir geta rukkað sjúklinga um aukakostnað.
Afleiðngin er sú að efnaminna fólk frestar því að fara til læknis og vandinn vex með tilheyrandi kostnaði fyrir fólkið sjálft og heilbrigðiskerfið.
Er þetta velferðarsamfélag og heilbrigðiskerfi sem hægt er að sætta sig við? Ég segi nei.
Til að bregðast við þessu ófremdarástandi mælti ég fyrir frumvarpi um breytingar á lögum um sjúkratryggingar sem er ætlað að sja til þess að heilbrigðisþjónusta hér á landi sé aðgengileg fyrir alla óháð efnahag.
Frumvarpið er ekki flókið. Í stuttu máli er það um að ef samningar eru lausir á milli ríkisins og veitendur heilbrigðisþjónustu í einkarekstri verði þeir settir í gerðadóm ef árangurslausar samningaviðræður hafa staðið í níu mánuði. Veitendum þjónustunnar er jafnframt óheimilt að rukka sjúklinga um aukagjald til viðbótar endurgreiðslu ríkisins.
Nú er frumvarpið farið til vinnslu í velferðarnefnd Alþingis. Ég mun þrýsta á að þaðan fari það til annarrar umræðu og samþykktar í þingsal. Líklegast er þó að stjórnarmeirihlutinn komi í veg fyrir það.
Ég skrifaði um málið í Morgunblaðið og Fréttablaðið. Einnig fjallaði Heimildin um þetta. Einnig hef ég spurt heilbrigðisráðherra um málið. Og hér er slóð á frumvarpið.
Seðlabankinn
Það vekur furðu hve skýrsla erlendra sérfræðinga um Seðlabanka Íslands hefur fengið litla umfjöllun.
Sérfræðingarnir eru þrír með Patrick Honohan fyrrverandi seðlabankastjóra Írlands í broddi fylkingar.
Skýrslan er birt í heild sinni á heimasíðu forsætisráðuneytisins. Þar er líka að finna samantekt á íslensku. Þar kemur m.a. þetta fram: „Það fyrirkomulag æðstu stjórnunar sem valið var í kjölfar sameiningarinnar kann að hafa verið gagnlegt til að tryggja að fyrstu skref sameiningarinnar væru tekin með eins skilvirkum hætti og kostur var, en þjónar ekki vel hlutverki sínu til lengri tíma litið og þarfnast endurskoðunar. Einnig ber að endurhugsa hvar valdheimildum er komið fyrir sem ekki eru sérstaklega faldar nefndum eða yfirstjórn bankans sameiginlega í lögum (e. residual powers).“
Tiltekið er að fyrirkomulag æðstu stjórnunar bankans feli í sér of vítt valdsvið og áhættu vegna lykilmanns, sem er seðlabankastjórinn.
Fjallað er einnig um að efla þurfi neytendavernd á fjámálamarkaði og margt fleira sem taka þarf tillit til innan bankans en einnig við lagasetningu.
Forsætisráðherra hefur mælt fyrir frumvarpi um fjármálaeftirlitsnefnd Seðlabankann og þar er enn gert ráð fyrir auknu valdi til eins manns, seðlabankastjóra. Ráðherra þarf að taka skýrslu sérfræðingana alvarlega og beita sér og bregðast við þeim athugasemdum sem dregnar eru fram í skýrslunni um mikilvæga starfsemi Seðlabanka Íslands sem er ein mikilvægasta stofnun landsins.
Um þetta skrifaði ég pistil í Morgunblaðið og grein á visir.is.
Sjávarútvegur
Ég sit fyrir Samfylkinguna í stóra hópnum sem matvælaráðherra skipaði um sjávarútveg og kallar vinnuna Auðlindin okkar. Fjórir starfshópar hafa skilað tillögum til umræðu um umhverfi, efnahag og samfélag. Tillögurnar eru 60 alls. Fyrsti fundur stóra hópsins um tillögur 1 - 16 var í vikunni. Þær tillögur eru um umhverfiið. 
Þessi hluti tillagnanna er einna líklegast að sátt náist um. Umhverfis- og loftlagsmál eru viðfangsefni sem við verðum að einbeita okkur að til að vinna gegn hlýnun jarðar. Fyrir okkur Íslendinga er aðgerðir gegn súrnun sjávar og neikvæðra áhrifa á lífríki og vistkerfi hafsins í okkar lögsögu stórkostlegt hagsmunamál sem við komumst ekki hjá að vinna að.
Tillögunum þarf að fylgja fjármagn eigi þær að komast til framkvæmda. Þar má til dæmis nefna auknar rannsóknir og einnig hvata til góðrar umgengni við umhverfið og til orkuskipta.
Helsti ágreiningur um auðlindina okkar snýr að því að fólki finnst að þjóðin fái ekki nægilegan arð af auðlindinni en horfir upp á stærsta hlutann renna til þeirra sem nýta auðlindina. Hlutur þjóðarinnar nægir ekki einu sinni fyrir nauðsynlegum rannsóknum og þjónustu við sjávarútveginn.
Engin sátt mun skapast nema tekið sé á því máli. Við í Samfylkingunni viljum að ákveðinn hluti aflahlutdeildar verði boðinn út ár hvert og tímabundnir leigusamningar gerðir um auðlindanýtinguna. Okkur finnst mikilvægt að fá fram markaðsverðið – verðið sem útgerðin er tilbúin til að greiða fyrir auðlindina á hverjum tíma og hverfa um leið frá reiknireglum sem stjórnmálamenn setja.
Í næstu vikur ræðum við svo um tillögur 17 - 44 sem eru um hámörkun verðmæta. Í vikunni þar á eftir er umræða um þær tillögur sem mestar deilur hafa staðið um sem eru auðlindagjöldin og sanngjörn dreifing.
Hér er slóð á frumvarp sem ég hef mælt fyrir og er til vinnslu í atvinnuveganefnd sem ætlað er að vinna gegn samþjöppun í sjávarútvegi.