Skattsvik og þrælahald
Fyrirsögnin er ógeðfelld en þetta eru samt orðin sem lýsa best því sem verkalýðsfélög víða um land horfa upp á. Í verktakabransanum eru til fyrirtæki sem vilja hlunnfara erlenda starfsmenn með því að greiða þeim laun sem ná ekki lágmarkslaunum hér á landi. Í ferðaþjónustunni ríkir eins konar gullgrafaraæði þar sem það sama fyrirfinnst. Reynt er að hafa laun af fólki og svört atvinnustarfsemi viðgengst. Þó flestir fari sem betur fer eftir lögum ber þetta okkur ekki fagurt vitni. Það ætti enginn að hylma yfir með þeim svíkja undan skatti eða hafa umsamin laun af fólki. Það eru ekki aðeins erlendir starfsmenn sem verða fyrir barðinu á þeim sem vilja skyndigróða og brjóta lögin. Mörg dæmi er um að illa sé komið fram við ungt fólk sem starfar í veitingahúsum eða hjá fyrirtækjum í ferðaþjónustu. Dæmi eru til að mynda um að starfsmenn fái engin útgreidd laun og séu titlaðir lærlingar þó enginn sé kennarinn eða skólinn.
Til að uppræta þessa skömm og lögleysu þarf eftirfarandi að gerast:
- Félög atvinnurekenda og verkalýðsfélög taki höndum saman við eftirlit með launagreiðslum.
- Aðalverktakar beri ábyrgð á því að undirverktakar fari að íslenskum lögum og launasamningum.
- Efla þarf eftirlit Ríkisskattsstjóra.
- Beita á sektum og leyfissviptingum ef fyrirtæki fara ekki eftir samningum um lágmarkslaun og aðbúnað starfsfólks.
Jafnaðarmenn geta ekki setið þöglir hjá og látið verkalýðsfélög ein um að benda á skattsvik og bera ábyrgð á að uppræta það sem kalla má með réttu þrælahald hér á landi. Við í Samfylkingunni munum ekki þegja yfir slíku eða samþykkja með fjársvelti eftirlitsstofnana eins og nú er gert. Við munum einnig beita okkur fyrir lagasetningu sem skýrir ábyrgðarsvið þeirra sem um ræðir.