Starfsmenntun í garðyrkju

Það kemur ekkert annað til greina en að við breytum neysluvenjum okkar ef við ætlum að ná einhverjum árangri í baráttunni gegn hlýnun jarðar. Neysluvenjur taka sem betur fer örum breytingum og ungt fólk gerir háværar kröfur um að við tökum okkur kröftuglega á í baráttunni við loftlagsbreytingar af mannavöldum.

Til að eiga einhverja möguleika á því að ná árangri í þessu stærsta sameiginlega verkefni mannskyns, þarf vilja almenn­ings til breyt­inga og póli­tískan vilja og kjark stjórn­málamanna.

Loftlagsáætlun

Í loftlagsáætlun stjórnvalda sem kynnt var í júlí í ár eru markmið um aukna innlegna grænmetisframleiðslu. Um það segir í áætluninni: „Aukin innlend grænmetisframleiðsla er sömuleiðis ný aðgerð sem miðar að því að auka framleiðslu á íslensku grænmeti um 25% á næstu þremur árum, styðja við lífræna grænmetisframleiðslu og stefna að því markmiði að íslensk garðyrkja verði kolefnishlutlaus eigi síðar en árið 2040.“

Athuganir sem gerðar hafa verið fyrir Samband garðyrkjubænda sýna að  kolefnis­spor íslensks grænmetis er allt niður í 26% af því sem innflutt grænmeti skilur eftir sig. Að meðaltali er um helmingsmunur á losun, íslenskri framleiðslu í hag. Þetta eitt sýnir að mikill umhverfisávinningur væri af aukinni innlendri framleiðslu á grænmeti.

Það er augljós hagur af því að ýta undir íslenska grænmetisframleiðslu. Það mætti gera með ýmsum hætti, s.s. með leiðum til að nýta jarðhitann betur, hvetja til nýsköpunar, styrkjum til kaupa á betri búnaði, sparneytnari lýsingu, að hækka gróðurhúsin sem fyrir eru svo afköstin verði meiri og gera styrki til raforkuflutninga markvissari. Hvetja þarf einnig unga bændur til að hefja framleiðslu með lagningu eins konar kynslóðabrúar frá þeim eldri til þeirra sem yngri eru.

Menntun og nýsköpun

Mikil eftirspurn er eftir garðyrkjuafurðum nú þegar og brýn þörf fyrir fólk sem hefur verkþekkingu í ræktun og framleiðslu. Sú þörf mun fara vaxandi ef stjórnvöldum er alvara með loftlagsáætlun sinni. Lykillinn af árangri og því að markmið stjórnvalda náist með aukinni grænmetisframleiðslu og skógrækt er að starfsmenntun á sviði umhverfis og garðyrkju styðji við nýsköpun og vöxt.

Rík þörf er fyrir öfluga starfsmenntun sem er í nánum tengslum við atvinnulífið og fagstéttir. Besta lausnin í þeim efnum væri að stofna sérstakan starfsmenntaskóla á framhaldsskólastigi að Reykjum í Ölfusi sem byggði á gömlum merg og nýtti þann grunn til að stórefla starfsmenntunina. Það skref þurfa stjórnvöld að stíga meini þau í raun eitthvað með áætlunum sínum.

Nýsköpun á fagsviðunum er samofin fagmenntun. Með því að efla Garðyrkjuskólann með starfsmenntun sem þörf er fyrir og endur- og símenntun fyrir starfandi fólk í greinunum gætu stjórnvöld náð betri árangri í loftlagsmálum og mætt breyttum neysluvenjum almennings.

Sýnum kjark í baráttunni gegn hlýnun jarðar. Nýtum styrkleika okkar og fjárfestum í starfsmenntun – það borgar sig.

Greinin birtist fyrst í Dagskránni fréttablaði Sunnlendinga