Það er nóg til

Það er nóg til

Á alþjóðlegum baráttudegi verkalýðsins sendi ég öllum launamönnum baráttukveðjur. Og tek undir slagorð ASÍ: Það er nóg til!

Atvinna og uppbygging
Framundan er uppbygging eftir heimsfaraldur og djúpa efnahagslægð. Allt sem viðkemur ferðaþjónustu kemur okkur í Suðurkjördæmi við. Stærsta hliðið inn í landið er á Keflavíkurflugvelli og næstum allir erlendir ferðamenn sem koma til landsins heimsækja náttúruperlur á Suðurlandi. Um leið og horft er til sérstöðu ákveðinna svæða er nauðsynlegt að bæta alla innviði í kjördæminu, allt frá vegagerð til heilbrigðisþjónustu og löggæslu sem þurfa að geta borið aukið álag.

Í þessari kreppu þurfum við að dreifa fjármagninu á rétta staði. Fjármunirnir verða að leita til þess fólks sem lenti í áfallinu núna og í innviðfjárfestingar sem styður við atvinnulífið.

Útrýmum fátækt
Það verður að taka betur utan um fólkið sem misst hefur vinnuna og draga úr tekjufallinu sem það hefur orðið fyrir, draga úr ójafnaðaráhrifum kreppunnar og koma í veg fyrir aukna misskiptingu. Ef við tryggjum ekki afkomuöryggi fólks meðan það er á milli starfa mun fátækt og ójöfnuður aukast.  Við þurfum kraftmiklar virkar vinnumarkaðsaðgerðir, lengra tímabil atvinnuleysisbóta, fleiri námsúrræði, skynsamlega útfærða ráðningarstyrki og tekjufallsstyrki til að mæta erfiðri stöðu fólks sem líður fyrir afleiðingar heimsfaraldurs.

Ójöfnuður vex vegna atvinnuleysis en einnig vegna þess að ellilífeyrir og örorkulífeyrir hækkar ekki í takti við lægstu laun. Þannig er fjölmennum hópum haldið í fátæktargildru þrátt fyrir loforð stjórnarflokkanna um að bæta kjör þeirra. Munurinn á lægstu launum og lífeyri hefur aukist mikið undanfarin ár. Við í Samfylkingunni tökum undir kröfur eldra fólks um að lífeyrir hækki um krónutölur lífskjarasamninganna og í samræmi við lágmarkstekjutrygginguna.

Innspýting í stað niðurskurðar
Á miklum álagstímum í heilbrigðiskerfinu vegna heimsfaraldurs og öldrunar þjóðarinnar hefur ríkisstjórnarin gert kröfu  um aðhald í rekstri á næstu árum í stað myndarlegrar innspýtingar. Því til viðbótar er gert ráð fyrir 30 ma.kr. óútfærðum niðurskurði eða skattahækkunum árlega á tímabilinu 2023–2025. Engin önnur þjóð smíðar sér fjármálareglu í heimsfaraldri eða setur sér slíkt skuldamarkmið sem mun hafa áhrif á efnahagslífið og þjónustu við fólk sem þarf á henni að halda.

Aðhaldsaðgerðir ríkisstjórnarinnar eru of harðar og koma allt of snemma, eða strax árið 2023 þegar atvinnuleysi er spáð 6-7%. Nær væri að beita ríkisfjármálunum til að jafna hagsveifluna og setja afkomuviðmið fyrir ríkissjóð sem er í samræmi við stöðuna í hagkerfinu og lánakjör ríkissjóðs.

Jafnaðarmenn í ríkisstjórn
Mikilvægar kosningar verða 25. september næst komandi, sennilega þær mikilvægustu í langan tíma. Eina leiðin til að fá félagshyggjustjórn eftir kosningar er að Samfylkingin vinni kosningasigur. Enginn annar flokkur mun hafa frumkvæði að myndun stjórnar um græna atvinnusókn og félagslegt réttlæti í stað afturhalds og stöðnunar.

Jafnaðarstefnan ein hefur svörin við þeim krefjandi áskorunum sem við stöndum frammi fyrir, jafnt í heimabyggð sem á heimsvísu.

 Greinin birtist fyrst í 1. maí blaði kjördæmisráðs í Suðurkjördæmi