527 milljarðar til 10% Íslendinga
Samfylkingin kynnti á dögunum eina snjalla leið til þess að aðstoða þá sem ekki eiga útborgun í íbúð. Hugmyndin er að fjölskyldur fái fyrirframgreiddar vaxtabætur, en það eru peningur sem leigjendur fengju hvort sem er að hluta í formi húsnæðisbóta og þeir kaupendur sem rétt eiga á vaxtabótum. Þetta er hófleg leið sem gagnast ekki bara íbúum höfuðborgarsvæðisins heldur líka sérstaklega vel þeim sem búa á landsbyggðinni. Leiðin felur í sér að fjölskyldur sem ekki eiga húsnæði fái allt að þrjá milljónir króna til að nýta í útborgun á íbúð.
Bilið breikkar milli þeirra sem eiga og þeirra sem eiga ekki
Munurinn milli ríkra og fátækra heldur áfram að aukast, ekki bara hér á landi heldur úti um allan heim. Þetta er eitt stærsta viðfangsefni alþjóðlegu jafnaðarmannahreyfingarinnar að finna leiðirnar til að dreifa peningunum betur. Þeim samfélögum sem leggja áherslu á jöfnuð farnast best, það sýna allar greiningar, enda eru Norðurlöndin efst á lista ríkja sem best er að búa í. Við gleðjumst yfir góðu gengi í íslensku efnahagslífi, en bendum jafnfram á og mótmælum því að auðurinn sem skapast skiptist ekki jafnt á milli hópa í samfélaginu. Á hverju ári höfum við beðið stjórnvöld um upplýsingar um þessa stöðu og svör þeirra fyrir árin 2013 og 2014.
Stöðugleiki heimilanna
Ef umfangið á misskiptingunni er skoðað kemur í ljós að af hreinni eign, sem orðið hefur til frá árinu 2010, hafa 527 milljarðar króna runnið til þeirra tíu prósent Íslendinga sem eiga mest, alls 20.251 einstaklinga. Það eru 26 milljónir á hvern einstakling. Það þýðir að tæplega fjórar af hverjum tíu krónum sem orðið hafa til af nýjum auð á þessum sex árum hafa farið til ríkasta hóps landsmanna. Ég hef sagt að króna í vasa sjúklings valdi ekki meira óstöðugleika en króna í vasa útgerðarmanns. Þegar jafnaðarmenn vilja jafna stöðu fólks og færa peninga úr vösum þeirra sem mest eiga til annarra, þá er gjarnan viðkvæðið að varðveita þurfi stöðugleikann. En króna í vasa efnaðs fólks skapar ekki meiri stöðugleika en króna í vasa hinna, s.s. ungs fólk sem vantar heimili. Þvert á móti.
Margt ungt fólk og leigjendur, sem fá ekki stuðning frá foreldrum til íbúðakaupa, ílengjast í foreldrahúsum eða festast á dýrum leigumarkaði. Það er okkar skylda að benda á þennan ójöfnuð og leggja til lausnir. Við tölum fyrir upptöku Evrunnar til að lækka vaxtastig, við tölum fyrir betri leigumarkaði og byggingu 5.000 leiguíbúða á næstu fjórum árum. Og við leggjum til að ungt fólk og fjölskyldur fái forskot á fasteignamarkaði.
Greinin birtist fyrst á Kjarnanum