Þriggja milljóna króna forskot á fasteignamarkaði
Þriggja milljón króna forskot á fasteignamarkaði fyrir þá sem ekki eiga íbúð er ný leið okkar í Samfylkingunni til að hjálpa leigjendum og ungu fólki á erfiðum fasteignamarkaði. Mikið hefur verið rætt um þessa leið síðan við kynntum hana á þriðjudaginn sem er ánægjulegt. Henni hefur ranglega verið líkt við leiðir ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknar sem kynntu 90% lán til sögunnar og fóru í skuldaniðurfellingu nú á kjörtímabilinu, sem er blessunarlega að ljúka nú í lok mánaðarins. Leið okkar mun ekki valda sömu þenslu áhrifum og ekki nýtast þeim ríkustu best. Við beinum stuðningi til þeirra sem á þurfa að halda með fyrirframgreiðslu vaxtabóta.
Ég leyfi mér að vitna hér í Stefán Ólafsson, prófessor sem bendir á það augljósa í athugsemd í nýrri frétt Eyjunnar:
“.. vaxtabætur eru einmitt EKKI ALMENNAR tilfærslur, heldur tekjutengdar og einnig eignatengdar. Þær renna fyrst og fremst til tekjulægri og eignaminni hópa. Það munar öllu fyrir vænt áhrif á fasteignaverð. Almennt er ekki beint samband milli örlætis vaxtabóta og húsnæðisverðs, eins og sjá má hér: http://blog.pressan.is/stefano/2016/02/06/leida-vaxtabaetur-til-haerra-husnaedisverds/”
Ég skrifaði grein um þessa nýju leið okkar sem birtist í morgun í Fréttablaðinu og ég læt hana fylgja með.
Forskot á fasteignamarkaði
Samfylkingin ætlar að jafna leikinn og bjóða þeim sem ekki eiga fasteign að nýta fyrirframgreiddar vaxtabætur til að fjármagna útborgun í íbúð. Stærsta vandamál ungs fólks sem er að kaupa sína fyrstu íbúð er að kljúfa útborgunina. Margar fjölskyldur eru fastar á ótryggum leigumarkaði, þar sem stærstu útgjöld heimilisins eru leiga og minna er til skiptanna fyrir aðrar nauðsynjar. Mánaðarleigan er hærri en það sem flest fólk borgar af húsnæðisláni.
Forskot á fasteignamarkaði er ein af nokkrum mikilvægum leiðum sem við viljum fara til að bæta stöðu barna og fjölskyldna á leigumarkaði. Þannig verður hægt að fá vaxtabætur næstu fimm ára greiddar út fyrirfram til kaupa á íbúð. Miðað við tekju- og eignamörk vaxtabóta myndi það þýða 3,0 m.kr. fyrir fólk í sambúð, 2,5 m.kr. fyrir einstætt foreldri og 2,0 m.kr. fyrir einstakling.
Þrjár milljónir króna duga til dæmis fyrir útborgun á 20 milljón króna íbúð m.v. 85% lán, eða sem stór hluti útborgunar í dýrari eign. Það er stuðningur sem kemur unga fólkinu úr foreldrahúsum eða námsmannaíbúðum og leigjendum í öruggt húsnæði. Forskotið fá þau sem ekki eiga íbúð og ættu rétt á vaxtabótum, ásamt þeim sem ekki hafa átt fasteign síðustu þrjú ár á undan. Á undanförnum árum hefur stuðningur í formi vaxtabóta minnkað gríðarlega, þar sem skerðingarmörk tekna og eigna hafa ekki breyst í samræmi við launaþróun og fasteignaverð. Samfylkingin ætlar að snúa þessari þróun við.
Samhliða Forskoti á fasteignamarkaði ætlum við að taka upp nýtt kerfi húsnæðisbóta, hækka skerðingarmörk og styðja betur við barnafjölskyldur en nú er gert. Og við ætlum að láta vaxtabætur ráðast af fjölda barna, sem er nýmæli.
Forskot á fasteignamarkaði er liður í kosningastefnu Samfylkingarinnar. Okkar markmið er einnig veruleg fjölgun almennra leiguíbúða, um 4000 á kjörtímabilinu, auk 1000 námsmannaíbúða um allt land. Jafnframt að tvöfalda stuðning við barnafjölskyldur og útrýma barnafátækt á Íslandi, en árið 2014 bjuggu 6.100 börn við efnislegan skort á Íslandi og stór hluti þeirra í leiguhúsnæði.
Jöfnum leikinn og kjósum heilbrigðari húsnæðismarkað.
Þessi grein birtist á Eyjunni, 06.10. 2016