Besta heilbrigðisþjónusta í heimi
Samfylkingin tekur undir ákall 87.000 Íslendinga um að stórauka framlög til heilbrigðisþjónustunnar. Það er óásættanlegt að spítalar séu sveltir, á meðan efnahagur er á uppleið. Veikir Íslendingar og fjölskyldur þeirra, eiga að hafa forgang. Við eigum öll að geta gengið að öflugri opinberri heilbrigðisþjónustu um allt land. Og hún á að vera ókeypis.
Já, við höfum efni á þessu. Við erum rík af auðlindum. Það er ekki eftir neinu að bíða.
En meira fjármagn dugar ekki eitt og sér til að bæta opinberu þjónustuna. Við verðum að hlusta á okkar færasta fólk og breyta heilbrigðisþjónustunni svo peningarnir nýtist betur. Mesta þörfin er í opinberu þjónustunni og þangað viljum við beina kröftum okkar. Við viljum að nýr Landspítali rísi sem fyrst og að heilsugæslan geti tekið á móti öllum sem þurfa aðstoð hratt og örugglega, líka þeim sem þurfa á sálfræðiþjóðnustu að halda.
Lækna á sjúkrahúsin
Landlæknir hefur bent á nauðsyn þess að ráða lækna í full störf á Landspítalanum. Því erum við sammála en í dag eru margir læknar í hlutastarfi, sem ógnar öryggi sjúklinga og gerir rekstur spítalans óhagkvæman. Skýrsla McKinsey um stöðu Landspítalans, sem kom út í síðustu viku, tekur í sama streng. Þar kemur fram að 30% lækna Landspítala eru í hlutastarfi en eingöngu 3 – 7% lækna á sjúkrahúsunum sem voru til samanburðar. Ef yfirlæknar eru undanskyldir er hlutfallið á Landspítalanum þannig að um helmingur lækna er í hlutastafi.
Skýrari markmið
Skýrslan sýnir auk þess fram á alvarleg áhrif sem einkarekstur getur haft, ef ekki er vel haldið utan hann. Hálskirtlatökur eru t.d. óeðlilega algengar á Íslandi. Og reyndin er að við tökum hálskirtlana úr gríðarlegum fjölda barna. Það gengur þvert á bestu ráðleggingar og þróunina í öðrum ríkjum og skapar auk þess óþarfa áhættu. En mjaðmaskiptaaðgerðir eru hins vegar allt of fáar í samanburði við önnur Evrópuríki. Svo virðist sem að flóknar og lífsnauðsynlegar aðgerðir séu síður í forgangi. Við verjum peningunum frekar í það sem er einfalt og ódýrt.
Órjúfanleg bönd
En Landspítalinn er ekki eyland heldur hluti af heilu heilbrigðiskerfi um allt land og svo að þjóðarsjúkrahúsið geti sinnt sínum skyldum þarf önnur þjónusta að vera góð. Stóru sjúkrahúsin, sjúkraflutningar, minni heilbrigðisstofnanir, hjúkrunarheimilin og heimaþjónustan. Allt tengist þetta órjúfanlegum böndum.
Verkefnið er því stærra en eingöngu að auka fjármagnið, en það sem ég get gert sem stjórnmálamaður er að setja nægt fjármagn inn í heilbrigðisþjónustuna og gefa okkar færustu sérfræðingum og stofnunum tækifæri til að þróa bestu heilbrigðisþjónustu í heimi.
Þessi grein birtist á Eyjunni, 22.09.2016