Neyðarbirgðir á hættustund. Ræða á Alþingi 11. október 2022
Herra forseti
Ég vil byrja á að þakka fyrir að hæstvirtur forsætisráðherra hafi tekið vel í að flytja þinginu skýrslu starfshóps um neyðarbirgðir.
Heimsfaraldur og stríð í Evrópu hafa ýtt við okkur og spurningarnar verða áleitnari um hvað við gerum og hvernig við stöndum þegar neyð steðjar að. Það er mikilvægt að við gerum okkur grein fyrir því hvernig við stöndum heimafyrir og eftir hvers konar hjálp við verðum að leita út fyrir landsteinana. Við búum á eyju og við erum mjög háð innflutningi á ýmsum sviðum. En vissulega getum við gert margt betur og það er augljóst af lestri skýrslunnar að það er nauðsynlegt að setja niður viðmið um birgðir og búnað, tæki og tól sem þurfa að vera til staðar í landinu þegar hættu- eða neyðarástand skapast líkt og Þjóðaröryggisráð hefur bent á. Þetta á við um lágmarksbirgðir matvæla, lyfjabirgðir, olíubirgðir og viðhaldshluti raforku- og fjarskiptakerfis. Einnig um hreinlætisvörur, sótthreinsandiefni og skordýraeitur, salt til hálkuvarnar og ísingaeyði fyrir flugvélar. Fleira mætti telja.
Í skýrslunni er leitast við að skilgreina hvaða vörur og tæki teljist nauðsynlegar til að tryggja lífsafkomu þjóðarinnar og þurfi að vera aðgengilegar á hættustundu svo unnt sé að vernda líf og heilsu almennings. Einnig til að tryggja órofa virkni mikilvægra innviða samfélagsins og þjónustu sem er nauðsynleg svo unnt sé að sinna brýnustu þörfum íbúa og samfélags við slíkar aðstæður. Ljóst er að mikil vinna er enn óunnin við þetta verkefni og aðkallandi að haldið verði áfram við setningu viðmiða og ákveða ferla og ábyrgðaraðila þannig að stjórnvöld hafi aðgang að upplýsingum um raunverulega birgðastöðu á hverjum tíma.
Fjallað er um fæðuöryggi og framboð matvæla á Íslandi í skýrslunni. Þar segir að fæðuöryggi á Íslandi sé háð innflutningi matvæla, innlendri matvælaframleiðslu og aðföngum til hennar. Við flytjum til dæmis inn áburð, fóður, vélbúnað og olíu til matvælaframleiðslu hvort sem er í landbúnaði eða fiskveiðum og fiskeldi. Þess vegna hlýtur það að vera forgangsmál að lágmarka truflanir á innlendri matvælaframleiðslu ef innflutningur raskast og bæta upplýsingaöflun um birgðir. Í skýrslunni er talað um nauðsyn þess að fela skilgreindum aðila að annast söfnun upplýsinga um birgðastöðu á landinu á sviði matvælaframleiðslu í sjávarútvegi, fiskeldi, landbúnaði og innflutningi matvæla.
Og er bent á þá athyglisverðu staðreynd að Landlæknir hefur gefið út lista yfir æskilegar neyðarbirgðir heimila í heimsfaraldri og á þeim lista eru aðallega tilgreindar innfluttar vörur.
Við framleiðum næstum allt kjöt, mjólk og fisk sjálf, en aðeins 43% af grænmeti sem við neytum en mjög fáa ávexti og 1% af kornvörum. Við ættum að geta gert mun betur í grænmetisframleiðslu, sparað okkur gjaldeyri með minni innflutningi. Við ættum einnig að eiga góða möguleika á fóðurframleiðslu og framleiðslu á áburði. Þarna eru tækifæri í matvælaframleiðslu sem mikilvægt er að nýta sem allra fyrst. Óumdeild eru tækifærin í orkuskiptum. Það að skipta út olíu fyrir rafmagn er ekki bara gjaldeyrissparandi heldur ákveðið öryggisatriði en þá þarf flutningskerfi rafmagns að standast ágjöf.
Um leið og búvísindi eru efld svo við lærum að gera betur þarf að gæta að auðlindum okkar sem felast í nægu vatni og landi til nýtingar.
Herra forseti
Í covid faraldrinum varð okkur ljóst að heilbrigðiskerfið okkar stóð veikt fyrir og þoldi illa álagið sem faraldrinum fylgdi. Uppbygging heilbrigðiskerfisins varðar þjóðaröryggi, líf og heilsu fólksins í landinu. Aðgerðir til skamms og langs tíma til að mæta mönnunarvanda og þeim lúxusvanda að þjóðin er að eldast ættu því að vera efst á forgangslista stjórnvalda. Og það er öryggisatriði að til sé í landinu nægur forði af lyfjum, lækningatækjum og hlífðarbúnaði.
Íslendingar reiða sig nær alfarið á innflutning lyfja. Evrópsk lyfjaframleiðsla hefur færst í auknum mæli til Indlands og Kína sem gerir allar aðfangskeðjur viðkvæmari á hættustund. Við erum fá hér á landi og ekki góður kostur ef markaðslögmálin eru ein látin ráða. Ef Ísland væri hluti af stærri markaði myndi afhendingaröryggi lyfja aukast. Samstarf við hin norrænu ríkin í þessum efnum gæti vafalaust bætt stöðu okkar og einnig þéttara samstarf við Evrópusambandið. Það var Svíþjóð sem reddaði okkur bóluefnum við covid í gegnum ESB í heimsfaraldri. Án þess góða greiða frænda okkar og vina hefðum við ekki staðið vel gagnvart þeirri hættu sem heimsbyggðin stóð frammi fyrir. Það verður að tryggja aðgang Íslendinga að eftirsóttum lyfjum á hættustund með þátttöku í Evrópu- og norrænni samvinnu. Stjórnvöld verða að beita sér fyrir formlegum samningum þar um.
Það þarf ekki hættuástand til að skortur sé hér á landi á lífsnauðsynlegum lyfjum. Skráð vörunúmer lyfja eru um 3.000 hér en um 14.000 í Noregi og Svíþjóð. Fylgst er með birgðum skráðra lyfja en engin fylgist með undanþágulyfjum sem læknar sækja um og eru einir ábyrgir fyrir. Þau lyf eru mun fleiri en þau skráðu og Lyfjastofnun telur að mörg óskráð lyf falli í raun undir skilgreiningu nauðsynlegra lyfja og því er mikilvægt að til sé listi yfir hvaða lyfjum, óháð markaðsstöðu, sé nauðsynlegt að eiga birgðir af.
Í skýrslunni sem við ræðum hér, kemur fram að lyfjabirgðir hafi farið minnkandi síðastliðin ár og að bregðast þurfi við þeirri þróun. Í þessum málum er verk að vinna og lausnin fyrir okkur er fólgin í nánara og formlegu samstarfi við ESB og Norðurlöndin.
Forseti
Þær eru sláandi upplýsingarnar í skýrslunni um birgðastöðu jarðefnaeldsneytis í landinu. Samkvæmt greiningu Orkustofnunar duga birgðirnar fyrir um 20-50 daga eldsneytisþörf miðað við meðaltalsnotkun hvers árs. Dæmi eru um að birgðir þotueldsneytis hafi farið undir 10 daga. Hvergi í lögum er tilgreindur aðili sem ber ábyrgð á að til séu neyðarbirgðir eldsneytis eða hversu miklar þær skuli vera, jafnvel þó að vöruflutningar, samgöngur og atvinnulíf geti lamast ef ekki er til taks orkugjafi til að knýja slíkt áfram.
Ísland skorar 56 stig af 100 mögulegum um orkuöryggi og situr í 52 sæti af 100 löndum innan Alþjóðaorkuráðsins, fyrir neðan flest lönd Evrópu. Evrópusambandið og Alþjóðaorkumálastofnunin gera kröfu til aðildaríkja sinna um 90 daga neyðarbirgðir eldsneytis miðað við innflutning næstliðins árs. Eldsneyti til millilandasiglinga er ekki innifalið í þessum kröfum. Við þurfum því í það minnsta að lögfesta 90 daga birgðir og gangast í það hratt og örugglega að skilgreina hlutverk aðila og greina kostnað við birgðahald líkt og skýrsluhöfundar leggja til.
Það er svo margt annað en stríð og heimsfaraldur sem geta ógnað öryggi okkar. Hlýnun jarðar með öfgaveðrum er staðreynd sem við þurfum að búa okkur undir líkt og aðrar þjóðir. Innviðir létu undan í ofsaveðrinu 2018. Stóðust ekki álagið. Við vorum betur undirbúin undir hvellinn sem gekk yfir landið á sunnudaginn. Við verðum að vera betur undirbúin fyrir þann næsta því álagið mun bara aukast.
Við erum mjög háð rafmagni, fjarskiptum og samgöngum. Við þurfum til dæmis rafmagn til að hlaða símana okkar sem eru ein af helstu öryggistækjum heimila. Vatnsöflun er háð rafmagni og sömuleiðis dælu- og hreinsistöðvar fráveitu.
Á Landsneti og dreifiveitum hvílir sú skylda samkvæmt raforkulögum að tryggja áreiðanleika í rekstri flutnings- og dreifikerfisins. Og þegar rafmagnið eða flutningsgetan verður að skornum skammti á að grípa til skömmtunar og tryggja raforku til þeirra fyrirtækja og stofnana sem veita almenningi bráðaþjónustu og tryggja öryggi borgara.
Orkustofnun og Landsnet eru í norræna samstarfinu nordBER um neyðarráðstafanir og krísustjórnun fyrir orkugeirann. Landsnet er með í vinnslu almenna viðbragðsáætlun til lengri tíma segir í skýrslunni. Áætlunin er sem sagt ekki til sem er algjörlega óásættanlegt í ljósi þess hversu háð allt samfélagið er rafmagni. Þessu verður að kippa í lag.
Salan á fyrirtækinu Mílu til fjárfestingarsjóðs í Frakklandi vakti umræður um þjóðaröryggi og hvað gæti gerst þegar fyrirtæki sem þjóðin treystir á gengur kaupum og sölum. Enda varðar starfsemi Mílu sannarlega íslenskan almenning og öryggi þjóðarinnar, varðar efnahags-, öryggis-, varnar- og almannahagsmuni.
Því lagði ég ríka áherslu á, hvar sem ég gat, að Míla færi ekki í hendur fjárfestingasjóðsins án skilyrða um samfélagsöryggi sem héldu. Ef illa fer verður almenningur fyrir skaða.
Nauðsynlegt er að setja lög og regluverk sem tryggir viðhald, öryggi og heimild yfirvalda til að taka fyrirtækið yfir ef neyðarástand skapast eða einkaaðilinn er ekki hæfur til að sinna svo mikilvægri starfsemi. Það verður að koma i veg fyrir að eigendur geti af geðþótta eða vegna vanhæfni lamað íslenskt samfélag, farið með fyrirtækið út fyrir lögsögu Íslands eða selt úr landi nauðsynleg tæki til starfseminnar. Mér er ekki ljóst hvort aðgerðir og lagasetning stjórnvalda i kjölfar sölunnar duga. Ég vona að ráðherrar sem fara með málaflokkinn hafi sett almannahagsmuni fremst í samtali við fyrirtækið og setningu skilyrða og laga.
Sala Mílu vakti upp spurningar um hvernig verja má sem best nauðsynlega innviði samfélagsins til að gæta að hag almennings og samfélagsöryggis. Það er Fjarskiptastofa sem á að stuðla að áreiðanlegum fjarskiptum út frá hagsmunum almannavarna, neyðarfjarskipta og netöryggis og skal vera ráðgefandi aðili fyrir yfirvöld þegar almannavarnarástand er yfirvofandi, það stendur yfir og er afstaðið.
Ég sagði áðan að það sé svo margt annað en heimsfaraldur og stríð sem geti ógnað öryggi okkar og nefndi hlýnun jarðar og öfgaveður. Netárásir eru annað sem við þurfum að verjast og líkt og á svo mörgum öðrum sviðum þurfum við að treysta alþjóðlegt samstarf í þeim efnum. Við erum meðlimir í NATO sem hefur beint sjónum sínum í auknum mæli að vörnum gegn netárásum. Áætlanir um forvarnir eru stöðugt í vinnslu innan ESB og á milli NATO og ESB og á þekkingu þar á bæ þurfum við að treysta. Og gæta um leið að því að tækin og tólin séu til staðar hér á landi ásamt varahlutum. Alheimsskortur á hálfleiðurum segir í skýrslunni að sé til kominn vegna röskunar á aðfangakeðjum í kjölfar covid og stríðsins í Úkraínu og hafi haft mikil áhrif á framboð og afhendingartíma tæknibúnaðar svo sem í fjarskiptanetum.
Forseti
Ekki þarf að orðlengja það hér hversu samgöngur eru mikilvægar okkur, bæði innanlands en einnig til og frá landinu. Ef ekki er hægt að tryggja samgöngur við umheiminn á hættustund með flugi eða siglingum hefur það víðtæk áhrif og skapar hættuástand, hefur áhrif á allt annað sem skiptir máli til að tryggja þjóðaröryggi.
Ef Keflavíkurflugvöllur lokast hefur það alvarlegar afleiðingar fyrir farþegaflutninga en einnig fyrir innflutning á nauðsynlegum vörum og á útflutning á ferskvöru frá landinu. Tryggja þarf birgðir af eldsneyti, varahlutum og á efnum, s.s. salti og afísingarefnum til að tryggja þjónustu sem best í ákveðinn viðmiðunartíma. Aðgengi að vatni, hita, rafmagni, fráveitu, hreinlætisvöru og mannafla þarf að vera til staðar svo flugsamgöngur rofni ekki.
Á það er bent í skýrslunni að engin farmflutningaskip eru á íslenskri skipaskrá. Hefur það áhrif á siglingar hingað til lands á hættutímum? Það þarf að ganga úr skugga um. Og möguleiki þarf að vera á strandflutningum ef vegir- og/eða flugsamgöngur rofna.
Krafan hlýtur að vera sú að samstarf á milli ríkis, sveitarfélaga, stofnana og félagasamtaka sé virkt og að heildaryfirlit allra almennra birgða viðbragsaðila liggi fyrir á einum stað.
Heimilin í landinu ættu að koma sér upp viku forða sem grípa má til og minnka álagið á viðbragðskerfin á hættutímum.
Forseti
Loftlagsvá með ofsaveðrum, heimsfaraldur, eldgos, skipulögð glæpastarfsemi, tölvuárásir, stríð. Allt þetta og meira til getur ógnað velferð okkar og öryggi.
Við verðum að vinna skipulega að því að safna neyðarbirgðum, koma á viðmiðum, ferlum og heildaryfirsýn um stöðuna hverju sinni. Og skýrslan segir okkur á hvaða sviðum við þurfum að gera enn betur.
Þetta reddast – má ekki vera efst í huga stjórnvalda þegar kemur að þjóðaröryggi. Þar þurfum við að vera raunsæ og skipulögð, gera okkur grein fyrir því sem við getum gert og hvað er ómögulegt.
Til að tryggja öryggi og sjálfstæði þjóðarinnar sem best verðum við að vinna enn nánar með öðrum þjóðum og auka alþjóðlega samvinnu á öllum sviðum.
Samvinnu og samhjálp liggur beinast við að leita til vina og nágranna. Norðurlöndin standa öll betur að vígi ef þau leggja þekkingu sína saman, deila reynslu og viðbúnaði.
Að lokum þetta: Við verðum að gæta að lýðræðinu líkt og við gætum að öðrum innviðum sem aldrei mega rofna. Lýðræðið er stoðin undir öruggt og gott samfélag.