Umhyggja og raunhæfar lausnir
Við lifum ótrúlega tíma. Á nokkrum vikum hefur tilveran umturnast og óvíst hvað framtíðin ber í skauti sér. Við vitum aðeins að lífið verður ekki alveg eins og það var í febrúar. Umhyggja, kærleikur og von um betri tíð setja mark á samskipti fólks á þessum óvissutímum og það er þakkarvert. Við sjáum svo vel hversu slíkt er mikils virði. Reiði og vonleysi mega ekki fá að taka völdin. Vinnum að því með öllum ráðum að hjálpsemi, vernd og öryggi verði forgangsraðað fremst þegar lausnir eru smíðaðar til að mæta atvinnuleysi og efnahagsvanda. Þegar efnahagurinn versnar og misskiptingin verður sýnilegri er hætta á ferðum. Þá hættu verðum við að varast. Það þarf að gera miklar kröfur til stjórnvalda og þau þurfa að sýna að þau standi undir þeim og rísi undir þeirri ábyrgð að stýra landinu út úr kreppu eftir heimsfaraldur. Við Suðurnesjamenn höfðum, löngu áður en COVID-19-faraldurinn knúði dyra, kallað eftir auknum fjárframlögum til Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja, til skólanna og til lögreglunnar. Þær kröfur eru enn í fullu gildi og reyndar enn mikilvægari en áður. Öryggi og tækifæri Heilbrigðisstofnunin verður að hafa burði til að þjóna 27 þúsund manna landssvæði. Við viljum heilbrigðisþjónustu fyrir alla og enginn á að þurfa að treysta á heilsugæslu í öðrum byggðalögum vegna fjársveltis okkar heilsugæslu. Þær úrbætur sem nú hafa verið boðaðar vegna aðstæðna duga skammt þar sem mannekla var fyrir. Skólarnir þurfa að taka við þeim atvinnuleitendum sem vilja styrkja stöðu sína. Að þeir standi öllum opnir með fjölbreytt nám og góð námsgögn er afar mikilvægt þegar svo margir hafa misst vinnu. Það kostar peninga næstu misserin, sem ríkið þarf að tryggja en það mun skila sér margfalt til baka. Mikið álag hefur verið á lögregluna undanfarin ár og almenn löggæsla hefur liðið fyrir fjárskort. Samvinna sveitarfélaga, skóla og lögreglu til að vernda börn gegn ofbeldi þarf að vera góð og markviss. Því miður færist heimilisofbeldi í vöxt við atvinnuleysi, það þekkjum við frá fyrri tíð, og lögreglan er með stórt hlutverk í forvörnum og lausnum fyrir þau sem verða fyrir heimilisofbeldi og slæmum aukaverkunum langtíma atvinnuleysis. Styrkja þarf þessar stoðir betur til að tryggja öryggi okkar allra. Flug og fleiri störf Framkvæmdir sem eru gagnlegar og atvinnuskapandi um leið skipta miklu máli. Þar er tvöföldun Reykjanesbrautarinnar augljóst verkefni og framkvæmdir við flugstöðina. Nýta á tímann vel til uppbyggingar við flugstöðina og undirbúa komu farþega þegar markaðir taka aftur við sér. Svo er nauðsynlegt er að ýta undir nýsköpun, rannsóknir og þróun í atvinnulífinu hér suður með sjó þannig að hér blómstri fjölbreytt fyrirtæki í framtíðinni. Ákvarðanir um lausnir eru pólitískar. Við jafnaðarmenn viljum að stuðningur við velferðarkerfið verði hluti aðgerða stjórnvalda ásamt því að vinna með fyrirtækjum gegn frekara atvinnuleysi. Við höfum lagt til að atvinnuleysisbætur, sem nú eru langt undir lágmarkslaunum, verði hækkaðar. Enginn getur framfleytt sér og börnum sínum á svo lágum mánaðargreiðslum. Vonandi snýst ríkisstjórninni hugur og tekur undir með okkur. Sjálfstæðismenn tala fyrir sölu Keflavíkurflugvallar. Við munum vinna kröftuglega gegn þeirri hugmynd. Keflavíkurflugvöllur er hlið okkar inn og út úr landinu. Hlið sem varðar þjóðaröryggi á öllum tímum. Við setjum ekki einokunaraðstöðu í hendur á aðilum sem hafa gróða einan að markmiði. Greinin birtist í Víkurfréttum